Fara í efni

Rekstrarhagnaður samstæðunnar var tæpar 152 milljónir króna eftir skatta en áætlanir gerðu ráð fyrir 320 milljóna króna hagnaði. Sá munur skýrist af því að fjármagnsgjöld voru tvöfalt hærri en áætlað hafði verið. Fjárfestingar voru rúmlega 1.430 milljónir króna og jukust um 300 milljónir frá fyrra ári. Nokkuð var um að verkefni flyttust milli ára og ný verkefni bættust við. Rekstur veitnanna, sérstaklega hitaveitunnar krefst áfram mikilla fjárfestinga. Veltufé frá rekstri er aðalmælikvarði á afkomu og þar með möguleika veitnanna á að fjármagna framkvæmdir með eigin fé. Veltufé frá rekstri var tæpar 1.500 milljónir króna á árinu 2022 en lækkaði um 100 milljónir frá fyrra ári. Í því sambandi er vert að hafa í huga að ekki voru tekin lán fyrir fjárfestingum á árinu.

Það liggur fyrir að ráðast þarf í umfangsmiklar rannsóknir og fjárfrekar framkvæmdir á næstu árum til að mæta aukinni og vaxandi þörf fyrir heitt vatn á starfssvæði Norðurorku. Nú standa yfir rannsóknir á jarðhita í Eyjafirði þar sem boraðar eru u.þ.b. 30 hitastigulsholur sem eru fyrstu skrefin í því að staðsetja líklegan nýtanlegan jarðhita. Norðurorka hefur aukið umtalsvert við fjármagn til rannsókna, þróunar og nýsköpunar. Fjárfestingaþörf er heldur að aukast, ný hverfi eru að byggjast upp á Akureyri og í nágrannasveitarfélögum. Þær væntingar að hægt verði að draga úr fjárfestingum munu ekki ganga eftir á næstu árum.

Jarðhitasvæðið á Hjalteyri, sem staðið hefur undir allri aukningu í heitu vatni á Akureyri í um 20 ár, virðist nú vera komið í hámarks afköst og það er ýmislegt sem bendir til þess að draga þurfi úr nýtingu á svæðinu til lengri tíma til þess að það verði sjálfbært. Það er að sjálfsögðu markmið Norðurorku að nýting auðlindanna sé alltaf sjálfbær og að ekki sé gengið nærri náttúrunni.

Áform um að hefja tilraunaboranir á Ytri Haga á árinu 2022 gengu ekki eftir en ýmislegt hefur tafið framgang þar. Samt sem áður var mikið lagt upp úr rannsóknastarfi á því svæði á árinu. Nú er stefnt að því að hefja tilraunaboranir næsta haust og í framhaldi af því að bora vinnsluholu sem komin verði í notkun á fyrri hluta ársins 2026. Til þess að það megi takast þarf allt að ganga upp og verður að segja að þetta eru bjartsýnustu spár. Eins og sjá má af þessum áætlunum þá er um að ræða margra ára verkefni þegar jarðhita er leitað, hann staðsettur og virkjaður.

Í lok ársins voru undirbúnar og framkvæmdar skipulagsbreytingar hjá Norðurorku sem hafa það að markmiði að einfalda og stytta boðleiðir og auka skilvirkni innan fyrirtækisins. Nýju skipulagi er ætlað að styðja við aukna áherslu á rannsóknir, þróun og nýsköpun ásamt því að auka áherslu á umhverfis- og loftlagsmál Norðurorku. Við erum einnig að horfa til þess að efla þjónustuþáttinn, auka áherslu á fræðslu og upplýsingamiðlun, baráttu gegn sóun og stuðning við bætta nýtingu.

Norðurorka hefur verið framsækið fyrirtæki hvað varðar umhverfis- og loftlagsmál sem birtist m.a. í verkefnum í „grænum lausnum“ og ábyrgð í loftlagsmálum. Ábyrgð Norðurorku, sem og íbúa, er mikil í umhverfis- og loftslagsmálum og ekki á aðra að benda í því máli. Norðurorka tekur hlutverk sitt alvarlega og leggur sitt af mörkum m.a. með skógrækt, framleiðslu á metani og lífdísli í dótturfyrirtækinu Orkey ehf. Norðurorka rekur 16 farartæki sem brenna metani og nokkur rafknúin ökutæki.

Rétt er að geta þess að margar áskoranir eru samfara rekstri á Orkey og framleiðsla á metani hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Það er einnig að birtast okkur að framleiðsla metans af haugnum á Glerárdal er að dala meira og hraðar en áætlanir gerðu ráð fyrir og ljóst að ekki er hægt að standa undir eftirspurn eftir metani á svæðinu með þeirri framleiðslu einni saman.

Stjórnvöld hafa sett metnaðarfull markmið varðandi orkuskipti og það er mál sem varðar starfsemi veitna mikið. Nú er unnið að gerð loftslagsvegvísis orku- og veitugeirans til að setja niður raunhæfar aðgerðir á þeirri vegferð að ná þeim markmiðum sem stjórnvöld setja. Orku- og veitugeirinn stendur mjög framarlega þegar kemur að aðgerðum sem styðja við stefnu og markmið stjórnvalda í að draga úr losun og Norðurorka er þar mjög framarlega, tel ég óhætt að segja.

Orku- og veitugeirinn stendur frammi fyrir hratt vaxandi áskorunum sem snúa að net- og upplýsingaöryggi. Grunninnviðir þeir sem orku- og veitufyrirtæki byggja upp og reka eru eftirsóknarverð skotmörk tölvu- og netárása og fyrirtæki í þessum geira verða að byggja upp og þróa öflugar varnir á því sviði. Norðurorka leggur mikla áherslu á að halda uppi öflugum vörnum og halda vöku sinni því að það sem er dugandi í dag er kannski ekki dugandi á morgun þegar kemur að vörnum gegn slíkum ógnum.

Viðfangsefni Norðurorku hf. eru mjög fjölbreytt og koma inn á marga þætti samfélagsins. Við erum að upplifa spennandi tíma, Ísland er á hraðri leið í orkuskiptum þar sem hlutverk veitna er stórt. Við erum einnig að sjá fram á þróun í fráveitumálum þar sem horft er til svartvatnslausna og nýtingu þeirra efna sem í dag fara ónýtt til sjávar. Áskoranir í öflun á heitu vatni eru vaxandi en um leið eru tækifæri fólgin í því að bæta nýtingu og draga úr sóun. Við eigum einnig vannýtt tækifæri í því að nýta glatvarma til orkuöflunar.

Ég hóf störf hjá Norðurorku í byrjun ágúst 2022. Það er góð tilfinning og hvetjandi upplifun að koma til starfa á vinnustað eins og Norðurorku þar sem samheldni, framsýni og metnaður einkenna vinnustaðinn. Ég er þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt með því að fela mér það hlutverk að leiða þetta öfluga og metnaðarfulla fyrirtæki áfram næstu árin. Starfsandi er einstaklega góður og starfsfólkið býr yfir mikilli og dýrmætri fagþekkingu og reynslu. Ég tók við mjög góðu búi hér í sumar, hvort sem horft er til mannauðs, reksturs eða fagmennsku. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka forvera mínum, Helga Jóhannessyni, fyrir hans góða og farsæla starf og um leið þakka ég honum fyrir það að miðla til mín af sinni yfirgripsmiklu þekkingu og reynslu.

Ég þakka stjórnarfólki fyrir ánægjulegt samstarf og sömuleiðis þakka ég starfsfólki Norðurorku fyrir góð störf, eljusemi og metnað og fyrir að halda uppi góðum starfsanda í krefjandi störfum.

Eyþór Björnsson
Forstjóri