Umhverfismál eru Norðurorku afar mikilvæg og hefur fyrirtækið samþykkt umhverfisstefnu og skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda auk þess að minnka myndun úrgangs frá starfseminni.
Til að undirstrika áherslu á virðingu við náttúruna hefur starfsfólk Norðurorku lagt sitt að mörkum í umhverfismálum undanfarin ár m.a. með því að hittast eftir vinnu, einn dag að vori, ásamt fjölskyldum til að tína rusl og fegra umhverfið í næsta nágrenni við höfuðstöðvar fyrirtækisins á Rangárvöllum. Í lok maí komu saman 45 einstaklingar, stórir og smáir, til að tína rusl og njóta útiverunnar. Dagurinn endaði svo á pizzuveislu.
Helstu aðgerðir fyrirtækisins til að draga úr kolefnislosun vegna starfseminnar er áhersla á að kanna ávallt möguleikann á vistvænum bílum við endurnýjun á bílaflotanum en eins og sjá má í kaflanum Tæki og búnaður þá eru nú 18 af 38 bílum Norðurorku knúnir á vistvænan hátt og þeim fer fjölgandi.
Auk áherslu á að finna leiðir til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda vinnur fyrirtækið einnig í bindingu kolefnis. Í gegnum árin hefur Norðurorka gróðursett tré og í upphafi ársins 2022 átti fyrirtækið um 55 hektara af skógi sem binda koltvísýring. Á árinu voru gróðursettar 11.880 plöntur í 4 hektara lands á Reykjum í Fnjóskadal. Norðurorka hefur metnaðarfull áform um áframhaldandi skógrækt næstu ár og til stendur að halda gróðursetningu áfram á Hjalteyri og á Reykjum í Fnjóskadal.
Til viðbótar við skógræktina hefur Norðurorka, frá árinu 2014, unnið gegn gróðurhúsaáhrifum með því að framleiða metangas úr gömlu sorphaugunum ofan við Akureyri. Þar sem metan er um 24 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur næst mikil minnkun gróðurhúsaáhrifa með því að koma í veg fyrir að metanið sleppi út í andrúmsloftið.
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá kolefnisspor Norðurorku frá og með árinu 2018. Ofan við núll línuna er talin upp losun vegna starfsemi fyrirtækisins en neðan við núll línuna sést binding kolefnis. Árið 2022 losaði Norðurorka 25 tonn kolefnis en batt 5.506 tonn. Fyrirtækið batt því mun meira magn CO2 sem það losaði og er heildarkolefnisspor ársins 2022 -5477 tonn CO2 ígildi.
Rekstur hreinsistöðvar fráveitu frá árinu 2020 var stórt jákvætt skref í umhverfismálum fyrir allt samfélagið við Eyjafjörð. Í hreinsistöðinni eru allir hlutir í fráveituvatninu síaðir frá með 3 mm þrepasíun áður en fráveituvatni er veitt út í fjörðinn en árið 2022 hreinsaði stöðin tæp 37 tonn af rusli úr fráveitunni.