Fara í efni

Norðurorka hóf GPS mælingar á lögnum og strengjum í kringum aldamótin 2000 til þess að hafa góða sýn yfir lagnakerfið á Akureyri og nágrenni. Í gegnum árin hefur Norðurorka aðeins haft eitt GPS tæki í notkun sem starfsfólk teiknistofu notar við mælingar en á árinu 2022 var öðru GPS tæki bætt við til þess að anna mestu álagspunktum í starfsemi Norðurorku. 

Allar nýframkvæmdir eru GPS-mældar, af verktökum eða starfsfólki Norðurorku, og upplýsingum bætt inn í teiknikerfið. Þannig er tryggt að haldið sé utan um raunstaðsetningu nýrra lagna í gagnagrunni sem heldur áfram að stækka.

Eftir að Norðurorka yfirtók fráveitu Akureyrar um áramótin 2013-2014, og á sama tíma gagnagrunn sem Akureyrarbær hafði sett upp um fráveitulagnir í bænum, hefur Norðurorka haldið áfram að safna og yfirfæra upplýsingar úr eldri gagnagrunni. Þessi vinna kláraðist á árinu 2022 og þar með var stórum áfanga náð, þ.e. að nú eru lagnir allra veitna komnar í sama gagnagrunn.

Það er gaman að segja frá því að á árinu 2022 fór teiknistofa Norðurorku í 838 mælingar á starfssvæðinu og mældir voru 45.000 metrar af lögnum/strengjum Norðurorku á árinu. 

Norðurorka hefur byggt upp öflugan gagnagrunn með upplýsingum um staðsetningu lagna/strengja, dýpt þeirra, stærð og aldur. Kortasjáin hefur verið í stöðugri þróun og vexti á árinu 2022 og reynst öflugt tól bæði fyrir starfsfólk og ekki síður viðskiptavini Norðurorku.

Í kortasjá Norðurorku, www.map.is/no, sem opin er öllum má sjá grunnupplýsingar um lagnir en starfsfólk teiknistofu veitir viðskiptavinum ítarlegri upplýsingar um nákvæma staðsetningu lagna/strengja.

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina