Fara í efni

Helstu framkvæmdir vatnsveitunnar á árinu 2022 var nýlagning í Holtahverfi norður, stofnlögn frá Vaðlaheiðargöngum, lagfæringar á Svalbarðsstrandarveitu og vatnsveitu Grímseyjar, ásamt tengdum verkefnum.

Holtahverfi norður

Á árinu var lögð vatnsveita jafnhliða gatnaframkvæmdum í nýtt hverfi, Holtahverfi norður. Hverfið er liður í þéttingu byggðar á Akureyri og var auðvelt að tengjast eldri stofnlögnum veitunnar til að tengja inn í göturnar.

Stofnlögn frá Vaðlaheiðargöngum

Þegar að Vaðlaheiðargöng voru boruð skáru þau stóra kaldavatnsæð. Vatnið var leitt út úr göngunum og hefur fram að þessu runnið í læk við vestari vegskála ganganna. Haustið 2021 var byrjað að leggja lagnir fyrir heitt og kalt vatn frá göngunum, samhliða framkvæmdum á göngu- og hjólastíg niður Vaðlareitinn. Lagnavinnu lauk í febrúar 2022 en kaldavatnslögnin endar skammt austan Eyjafjarðarbrúar og er tengd við Skógarböð sem er eini notandinn á veitunni. Á næstu árum verður klárað að leggja lögnina meðfram Leiruvegi og hún síðan tengd við innanbæjarkerfið á Akureyri.

Svalbarðsstrandarveita

Á árinu var farið í framkvæmdir við að skipta út gömlum miðlunargeymi sem þjónað hefur vatnsveitu Svalbarðsstrandar í gegnum tíðina. Grafnir voru niður 6 plasttankar en hver tankur er 12,5 m langur og 2 m í þvermál og rúmar því um 39 m3. Lokahús sem staðsett var við gamla tankinn verður nýtt áfram. Gamli vatnstankurinn hefur þar með lokið sínu hlutverki og verður fjarlægður á árinu 2023. Hér má sjá fleiri myndir frá framkvæmdunum.

Á Svalbarðseyri var tengd sverari stofnlögn í nýtt hverfi sem er að byggjast upp neðan við Valsárskóla til tryggja nægjanlega vatnsþörf í stækkandi hverfi.

Grímsey

Eftir að Norðurorka tók við rekstri vatnsveitu Grímseyjar hefur verið unnið í ýmsum lagfæringum á veitunni. Árið 2022 var stærsta verkefnið að smíða dæluskúr og setja yfir borholu GR-11 sem er aðal vatnstökuhola Grímseyjar. Í húsinu er staðsett lýsingartæki sem gegnumlýsir vatnið, og tryggir þannig vatnsgæðin. Í húsinu er einnig stjórnbúnaður, m.a. til að stýra dælingu í vatnstank sem staðsettur er fyrir ofan þorpið. Í húsinu er einnig stýrikerfi fyrir fjarvöktunarbúnað og er nú hægt að fylgjast með veitunni í skjákerfi Norðurorku.

Byggður var nýr inngangur inn í lokahús sem staðsett er við vatnstankinn en gamli inngangurinn var að hruni kominn og ekki hægt loka aðgengi að lokahúsinu.

Að auki voru endurnýjaðir flestir brunahanar veitunnar og skipt um stofnloka. Árið 2023 stendur til að halda framkvæmdum áfram og virkja holu GR-5 til að nýta hana sem varaholu fyrir veituna. Einnig þarf að gera lagfæringar í lokahúsi við geymi og ýmsar minni framkvæmdir.

Ýmsar framkvæmdir á árinu

Önnur verkefni á árinu voru t.d. endurnýjun stofnlagna í Hvannavöllum og hluta Tryggvabrautar þar sem gömlum lögnum út pottstáli var skipt út og plastlagnir settar í staðinn. Endurnýjaðar voru lagnir á gatnamótum Höfðahlíðar og Lönguhlíðar auk þess sem lagt var í nýja götu, Hulduheima í landi Halllands, í Eyjafjarðarsveit. Það var því í ýmis horn að líta hjá vatnsveitunni á árinu fyrir utan allt hefðbundið viðhald.

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina

Ársskýrsla Norðurorku