Fara í efni

Samorka

Norðurorka er aðili að SAMORKU, samtökum orku- og veitufyrirtækja í landinu og í gegnum þau aðili að Samtökum atvinnulífsins. Samorka er málsvari orku- og veitufyrirtækja og beita sér fyrir farsælli þróun í orku‐ og veitumálum á Íslandi. Í ráðum og nefndum Samorku situr fjölmargt starfsfólk þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að samtökunum. Á meðal meginverkefna Samorku eru innri málefni svo sem kynningar-, fræðslu- og félagsstarfsemi aðildarfyrirtækjanna. 

Fallorka ehf.

Fallorka ehf. er dótturfélag Norðurorku og hefur með höndum framleiðslu og sölu á raforku til viðskiptavina um land allt. Félagið starfrækir fjórar vatnsaflsvirkjanir við Eyjafjörð, þ.e. tvær í Glerá og tvær í Djúpadalsá. Árið 2022 varð orkuframleiðslan 45,9 GWst. Metframleiðsla var í Djúpadalsvirkjunum eða 19,1 GWst sem má rekja til þess að stífla Djúpadalsvirkjunar 2 var hækkuð fyrir þremur árum og því mögulegt að geyma meira vatn fram á veturinn.

Fallorka setti upp eina hleðslustöð fyrir rafbíla á árinu við Skógarböðin og fleiri eru á teikniborðinu. Félagið hefur sett upp sólarsellur og tvær litlar vindmyllur í Grímsey til að framleiða umhverfisvæna orku og draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti í eynni.

Fallorka hefur formlegt rannsóknarleyfi frá Orkustofnun vegna mögulegrar þriðju virkjunar í Djúpadalsá og á árinu var lokið rannsóknum á jarðfræði við fyrirhugað stíflustæði og á vatnsrennsli í ánni. Nú er hafin vinna við frumhönnun og mat á arðsemi.  Félagið er einnig með rannsóknarleyfi vegna Núpár í Sölvadal við Eyjafjörð og er unnið að rennslismælingum.

Undirbúningur vegna mögulegrar nýtingar á vindorku í Hörgárdal er í biðstöðu þar sem sveitarfélagið er ekki tilbúið að taka vindorkugarð inn á skipulag.

Vegna harðnandi samkeppni á raforkumarkaði varð tap af rekstri Fallorku 63,4 mkr. en veltufé frá rekstri var jákvætt um 30 milljónir króna.

Vistorka ehf.

Árið 2022 var sjöunda starfsár Vistorku ehf. sem hefur það að megin markmiði að vinna að umhverfis- og loftslagsmálum svæðisins. Á aðalfundi félagsins í ágúst tók Brynja Hlíf Þorsteinsdóttir við sem formaður stjórnar, skipuð af L-lista. Nánari upplýsingar um starfsfólk og stjórnarfólk Vistorku má finna hér.

Eitt stærsta verkefni ársins var vinna við skýrslu um frumhagkvæmnimat Líforkuvers á NA-landi. Verkefnið var unnið í samvinnu við SSNE með styrkjum frá sveitarfélögunum og Umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytinu. Niðurstöður matsins voru kynntar á fjölmennum fundi í Hofi í nóvember og var skýrslan síðan gefin út í framhaldi. Líforkuver snýst um tæknilega lausn á því að taka við öllum lífrænum úrgangi og meðhöndlun á honum með það að markmiði að framleiða verðmætar vörur eins og metan, lífdísil og áburð. Skýrslan er aðgengileg hér.

Í maí var Strætóskólinn prufaður í fyrsta skipti af 5. bekk Naustaskóla. Verkefnið er samstarfsverkefni Vistorku, Símeyjar, Orkuseturs og grunnskóla á Akureyri. Markmið verkefnisins er að kenna grunnskólabörnum á aldrinum tíu til ellefu ára á strætó svo þau geti orðið sjálfstæðir notendur. Nemendur læra að skipuleggja ferðir sínar, lesa úr leiðarkerfum og tímatöflum auk þess sem þau fá fræðslu um áhrif einkabílsins á umhverfið og hvað ávinnst með notkun almenningssamgangna.

Um mitt sumar voru fyrstu skref stigin í orkuskiptum í Grímsey með uppsetningu á tveimur vindmyllum og sólarsellum. Verkefnið er í eigu Fallorku en Vistorka og Orkustofnun komu að undirbúningi og framkvæmd. Innkaup og uppsetning á búnaði var í höndum Rafeyrar.

Síðla hausts setti Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á fót teymi á vegum ráðuneytisins sem hefur það hlutverk að vinna náið með Samtökum atvinnulífsins, Bændasamtökunum, Samtökum fyrirtækja í landbúnaði og Landssambandi smábátaeigenda um markmið og aðgerðir í samdrætti í losun til ársins 2030. Verkefnið kallast Loftslagsvegvísar atvinnulífsins þar sem Vistorka mannar stöðu verkefnisstjóra teymis ráðuneytisins.

Frekari upplýsingar um þessi verkefni og fleiri má finna á vefsíðu Vistorku, þar má einnig finna mikið af fróðleik, fréttum, greinum, skólaverkefni og fleira sem tengist umhverfis- og loftslagsmálum.

Tengir hf.

Tengir hf. er hlutdeildarfélag Norðurorku hf. og er eignarhluti félagsins rúm 38%. Fyrirtækið rekur ljósleiðaranet á Norðurlandi. Starfsemi Tengis hefur vaxið mikið undanfarin ár og er tekjugrunnur félagsins sterkur. Á árinu 2022 voru miklar fjárfestingar í ljósleiðaranetinu og var mikið um nýlagnir á Akureyri þar sem nýtingarhlutfall í nýtengingum var mjög gott. Nokkuð var unnið í Hrísey og þéttbýli Vopnafjarðar, ásamt því að unnið var í samstarfi við Mílu á Húsavík.

Gert er ráð fyrir að heldur muni draga úr framkvæmdum á árinu 2023 þar sem ótengdum eignum fer ört fækkandi. Helstu verkefni munu liggja í áframhaldandi uppbyggingu í þéttbýliskjörnum á starfssvæðinu en félagið áætlar að í lok árs 2023 muni flestum fasteignum á Akureyri standa ljósleiðari Tengis til boða. Hvað varðar framkvæmdir í dreifbýli þá er fyrirhugað að leggja ljósleiðara yfir Fljótsdalsheiði, um 7 km leið frá Fosshóli að Kvígindisdal, í þeim tilgangi að auka öryggi fjárskiptanetsins og tryggja samband um Þingeyjarsveit.

Rekstur Tengis gekk vel á árinu 2022. Velta félagsins var um 633 milljónir króna og hagnaður fyrir og án fjarmagnsliða var rúmlega 117 milljónir króna, sem er hækkun um tæplega 37 milljónir á milli ára. Rekstrarkostnaður var svipaður og áður og fer hann hlutfallslega lækkandi.

NORAK ehf.

NORAK ehf. er hlutdeildarfélag Norðurorku hf. en Norðurorka hf., Rafeignir ehf. og Álag ehf. eiga fyrirtækið að jöfnu. Félagið á og rekur spennuvirki við álþynnuverksmiðju TDK í Krossanesi sem spennir niður raforku sem kemur frá aðveitustöð Landsnets við Rangárvelli. Rekstur félagsins gekk vel á árinu 2022 en reksturinn er fjárhagslega stilltur af miðað við samningstíma verksmiðjunnar til ársins 2027.

Hrafnabjargavirkjun ehf.

Hrafnabjargavirkjun ehf. er að 48,75% hlut í eigu Norðurorku, 48,75% hlut í eigu Orkuveitu Húsavíkur og 2,5% eru í eigu Atvinnueflingar Þingeyjarsýslu. Félagið var stofnað um fýsileika þess að nýta vatnsorku í Skjálfandafljóti ofan Bárðardals.
Í Rammaáætlun III sem Alþingi samþykkti á árinu 2022 voru allir fjórir nýtingakostir félagsins settir í verndarflokk. Það er því áfram mikil óvissa um framtíð félagsins.

Íslensk orka ehf.

Norðurorka er hluthafi í félaginu Íslensk orka ehf. en félagið heldur utan um jarðhitaréttindi, borholur og rannsóknir á jarðhitakerfum í Öxarfirði, verkefni sem enn er í biðstöðu. Fram hafa komið áhugasamir aðilar um nýtingu á heita vatninu til raforkuframleiðslu en það er mat stjórnar Íslenskrar orku að hagkvæmara sé fyrir félagið og heimafólk að markaðssetja heitt vatn af svæðinu til einhvers konar iðnaðarframleiðslu. Það virðast þó vera að opnast fleiri tækifæri í landeldi sem nýtt geta jarðhitann og fleiri kostir geta komið til skoðunar.

Netorka hf.

Norðurorka á 7,73% hlut í Netorku hf. sem gegnir því hlutverki að vera sameiginlegt mæligagna- og uppgjörsfyrirtæki fyrir íslenskan raforkumarkað. Hlutverk Netorku hefur vaxið í ljósi aukinnar samkeppni á raforkumarkaði og þar af leiðandi fleiri aðilaskiptum.

Orkey ehf.

Norðurorka hefur átt Orkey ehf. að fullu frá árinu 2019 en Orkey rekur lífdísilverksmiðju á Akureyri. Lífdísill er unninn úr innlendu hráefni, svo sem notaðri steikingarolíu frá veitingahúsum og heimilum. Það er mikilvægt að þessum úrgangi sé safnað og þannig sé komið í veg fyrir að hann endi í fráveitukerfum Norðurorku þar sem hann getur valdið skaða. Orkey vinnur verðmæti úr þessum úrgangi, í anda hringrásarhagkerfisins, og því mikilvægt að hann endi ekki í urðun. Eftirspurn eftir lífdísli Orkeyjar hefur farið vaxandi en þó eru margar áskoranir í framleiðslunni sem og rekstrarlegar sem þarf að yfirstíga. Orkey er því enn sem komið er rekin á samfélagslegum grundvelli.  

Framtíðarsýn Norðurorku er að samþætta rekstur Orkeyjar öðrum fyrirtækjum sem taka á móti úrgangi og vinna úr honum verðmæti.

EIMUR

EIMUR er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, SSNE, Norðurorku og Orkuveitu Húsavíkur um bætta nýtingu orkuauðlinda og aukna nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra. Starf EIMS er um margt óáþreifanlegt og lýtur frekast að því að sækja tækifæri, afla styrkja til nýsköpunar og þróunar, auka þekkingu, umtal og möguleika aðila á að fjölnýta auðlindastrauma orkuauðlinda sem eru á svæðinu til verðmætasköpunar.

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina