Norðurorka hefur undanfarin ár tekið á móti gestum sem óska eftir að koma í heimsókn til að kynna sér starfsemi fyrirtækisins og þau störf sem þar eru unnin. Gestir af öllum skólastigum, allt frá leikskóla og upp í háskóla hafa komið í heimsókn ásamt félagasamtökum og ýmsum fyrirtækjum. Móttökur af þessu tagi gefa okkur tækifæri til að koma ákveðnum sjónarmiðum á framfæri auk þess sem þær verða mögulega til þess að einhverjir líti á Norðurorku sem ákjósanlegan vinnustað í framtíðinni.
100 ára afmæli rafveitu á Akureyri
Í september 2022 voru liðin hundrað ár frá því að raforkuframleiðsla og -dreifing hófst á Akureyri.
Stofndagur Rafveitu Akureyrar er 30. september 1922, þegar straumi var hleypt á rafdreifikerfið á Akureyri. Þessi merki áfangi í sögu bæjarins átti sér þó langan aðdraganda því fyrstu hugmyndir um raflýsingu á Akureyri kviknuðu í kringum aldamótin 1900. Mikill kostnaður óx Akureyringum í augum en þrátt fyrir það voru ýmsir möguleikar skoðaðir og undirbúningsvinnan leiddi síðan til þeirrar ákvörðunar árið 1921 að ráðast í stíflugerð í Glerá það ár og stöðvarhús Glerárvirkjunar var byggt árið eftir. Virkjunarframkvæmdir gengu vel og þann 17. september 1922 var fulltrúum í bæjarstjórn Akureyrar boðið að vera viðstaddir þegar rafmagnsvélarnar voru gangsettar í fyrsta skipti. Allt gekk þetta að óskum og tæpum hálfum mánuði síðar, 30. september, fengu fyrstu húsin afl frá Glerárstöð. Stór og mikilvægur kafli í sögu Akureyrar var þar með í höfn.
Aldarafmælisins var minnst með ýmsum hætti á árinu. Fyrrverandi starfsfólki Rafveitu Akureyrar var boðið til kaffisamsætis auk þess sem rafverktökum á svæðinu var boðið til samráðs- og kynningarfundar. Í september var svo sérstök afmælisdagskrá í Hofi sem var öllum opin. Þar voru fluttir áhugaverðir fyrirlestrar um ýmis atriði tengd raforkumálum og bauðst gestum og gangandi m.a. að skoða gamlar ljósmyndir frá starfinu og kynnast starfseminni betur. Sjá má ýmsar myndir í tengslum við afmæli rafveitu hér.