Fara í efni

Á árinu 2022 starfaði 81 einstaklingur hjá Norðurorku í 73 stöðugildum, 54 karlar og 27 konur. Á framkvæmdasviði, sem jafnframt er fjölmennasta sviðið, starfaði 31 einstaklingur yfir árið, á veitu- og tæknisviði 25 og á þjónustu- og fjármálasviði 16. Á stoðsviðum og skrifstofu forstjóra störfuðu níu einstaklingar á árinu en þá tók nýr forstjóri til starfa auk fjármálastjóra.

Níu einstaklingar komu til starfa í sumarafleysingar og tímabundin verkefni, sjö konur og tveir karlar, sem er í takt við stefnu Norðurorku um að bjóða konum nemastöður og sumarstörf. Tveir einstaklingar voru í tímabundnum verkefnum á framkvæmdasviði, fimm á veitu- og tæknisviði og tveir á þjónustu- og fjármálasviði. Mælaálestur var, eins og undanfarin ár, að mestu í höndum verktaka en fimm álesarar komu tímabundið inn á launaskrá á meðan á verkefninu stóð.

Starfsmannavelta jókst úr 5,8% í 11,6% enda óvenju mikil endurnýjun í starfsmannahópnum á árinu. Sjö létu af störfum hjá Norðurorku en níu gengu til liðs við fyrirtækið. Til viðbótar við forstjóra voru ráðnir þrír karlmenn til starfa á framkvæmdasviði. Þrjár konur og karl hófu störf á veitu- og tæknisviði og tvær konur á þjónustu- og fjármálasviði. Alls voru auglýst tíu störf en ekki náðist að ráða í eitt starfið.

Töluverð starfsþróun varð innan Norðurorku en til viðbótar við auglýst störf voru fimm ráðningar án auglýsingar. Fráfarandi forstjóri tók að sér tímabundið starf ráðgjafa út árið. Aðalbókari fluttist í starf fjármálastjóra, mælingamaður á teiknistofu fluttist í starf sérfræðings á teiknistofu og mælingamaður í tímabundinni ráðningu fékk fastráðningu. Tveir einstaklingar sem voru ráðnir í sumarstörf, annars vegar í fasteignaþjónustu og hins vegar framkvæmdaþjónustu, fengu fastráðningu í stað annarra einstaklinga sem létu af störfum.

Á árinu voru veittar starfsaldursviðurkenningar í fyrsta sinn. Almennt er starfsaldur hár og starfsmannavelta lítil hjá fyrirtækinu. 23 einstaklingar höfðu starfað 10 ár eða lengur hjá Norðurorku þegar afhendingin fór fram en samanlagður starfsaldur þeirra sem hlutu viðurkenningu telur 545 ár.

Starfsmannafundir og -samtöl

Heimsfaraldurinn gerði það að verkum að fáir starfsmannafundir voru haldnir fram eftir ári, einn í febrúar og annar í maí en að afloknu sumri voru aðstæður orðnar öllu betri og haldnir voru fjórir starfsmannafundir fyrir lok árs. Fundirnir eru alla jafna haldnir í matsal fyrirtækisins. Jafnframt var boðið upp á þátttöku starfsfólks í gegnum Teams, sem var talsvert nýtt vegna fjöldatakmarkana eða fjarvinnufyrirkomulags í upphafi árs en það var augljóst á seinni hluta ársins að flestir kjósa að geta komið saman og hist augliti til auglitis.

Starfsmannasamtöl fara fram tvisvar á ári og hófust þau í mars og október. Í fyrra samtalinu var áhersla á hlutverk starfsfólks og starfslýsingar skoðaðar og uppfærðar. Í seinna samtalinu var áhersla á starfsþróun. Í kjölfar samtalanna var unnið að breytingum á starfsaðstöðu, skipulögð voru fagtengd námskeið, ferlar endurskoðaðir og athugaðir möguleikar á tengingum ólíkra kerfa.

Ráðstefnur og kynningar

Framan af ári var lítið um ráðstefnur og kynningar. Glæsilegt Samorkuþing fór þó fram í Hofi 9. og 10. maí. Þingið er haldið á þriggja ára fresti og er stærsti vettvangur orku- og veitugeirans til að koma saman í heild sinni og ræða það sem efst er á baugi hverju sinni. Allt starfsfólk Norðurorku hafði kost á því að taka þátt í þinginu og sitja þá fyrirlestra sem þeim þóttu áhugaverðir auk þess sem fimm starfsmenn fluttu erindi.

Mannauðsdagurinn var haldinn í Hörpu 7. október og Norðurorka sendi þrjá stjórnendur til þátttöku en dagurinn var nú haldinn í tíunda skipti. Mannauðsdagurinn hefur vaxið hratt og dafnað með hverju ári og er nú einn stærsti viðburður stjórnunar og mannauðsmála á Íslandi. Ráðstefnuna sóttu 800 gestir og vörur og þjónusta var kynnt á 50 sýningarbásum. 

Í október fóru tveir rafvirkjar á námskeið og kynningu á bilunarleit í strengjum hjá Megger í Þýskalandi. 

Í nóvember fór hin árlega kynnisferð starfsfólks fram en slíkar ferðir eru liður í að auka þekkingu starfsfólks á starfsemi fyrirtækisins. Tæplega fimmtíu starfsmenn fóru í ferðina og var ferðinni m.a. heitið í hreinsistöð fráveitu og svo til Ólafsfjarðar. Hér má sjá myndir úr kynnisferðinni.

 

Samgöngu- og heilsueflingarstyrkir

Jón Hermann Hermannsson er einn af þeim sem hjólar til og frá vinnu allt árið um kring. (Mynd: Gunnur Ýr Stefánsdóttir)Fyrirtækið hefur hvatt starfsfólk til þess að ganga eða hjóla til vinnu með því að greiða samgöngustyrk í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra á hverju ári. Eftir óvenjulegt tímabil þar sem margt starfsfólk sinnti fjarvinnu að heiman fjölgaði aftur skráðum dagafjölda þar sem nýttur var vistvænn og heilsusamlegur ferðamáti til og frá vinnu.

Norðurorka greiddi samgöngustyrk fyrir 244 mánuði ársins 2022 en til samanburðar voru þeir 196 árið 2021 og 184 árið 2020. Flestir mánuðir voru greiddir árið 2019 (fyrir covid) þegar starfsfólk fékk greiddan samgöngustyrk fyrir 277 mánuði.  
Árið 2022 voru flestir sem fengu greiddan styrk fyrir október og fæstir sem fengu greiddan styrk fyrir janúar. Samtals skráði starfsfólk 3.993 daga, sem ferðast var til og frá vinnu með vistvænum hætti.

Eins og árið áður fengu 39 einstaklingar greiddan heilsueflingarstyrk en þeir sem fengu greiddan samgöngustyrk fjölgaði um fjóra upp í 29 einstaklinga.

Endurmenntun 

Að venju fóru árlegar fræðsluvikur fram í janúar. Þær spönnuðu tvær vinnuvikur frá 10. til 21. janúar. Jafnréttisráð skipulagði námskeið og vinnustofur um fordóma og mismunun á vinnustað, sem ekki reyndist unnt að halda í janúar vegna covid. Því var brugðið á það ráð að fresta þeim námskeiðum og vinnustofum fram í mars.

Þegar allt er talið voru haldin 35 mismunandi námskeið og ef talinn er fjöldi haldinna námskeiða, sum voru haldin oftar en einu sinni fyrir mismunandi hópa, voru þau alls 53 talsins og töldu samtals 116 kennslustundir. Heildarþátttakendafjöldi var 729, sem er samsvarandi því að hver einstaklingur í starfi hjá Norðurorku hafi setið um 10 námskeið.

Jafnréttismál

Jafnréttisráð var á sínu öðru starfsári og fundaði átta sinnum á árinu 2022. Ráðið er skipað fimm sjálfboðaliðum, tveimur konum og þremur körlum úr hópi starfsfólks til viðbótar við mannauðsstjóra.

Til viðbótar við fyrrgreinda fræðslu, sem ráðið stóð fyrir í mars lagði jafnréttisráð fram tillögur að aðgerðum í tíu liðum. Tillögurnar voru kynntar fyrir framkvæmdaráði og millistjórnendum í maí og í kjölfarið teknar fyrir af stjórnendum, settar í framkvæmd og/eða svarað efnislega.

Starfseiningar Norðurorku hafa verið skilgreindar eftir sviðum og flokkaðar í sex einingar:

  • Framkvæmdaþjónusta, verkstæðisþjónusta og fráveita (kynjahlutf. kk/kvk: 95% / 5%)
  • Rafmagnsþjónusta (kynjahlutf. kk/kvk: 89% / 11%)
  • Verkefnastjórar og Kerfisstjórn (kynjahlutf. kk/kvk: 93% / 7%)
  • Fasteignaþjónusta og Teiknistofa (kynjahlutf. kk/kvk: 30% / 70%)
  • Þjónustu- og fjármálasvið (kynjahlutf. kk/kvk: 40% / 60%)
  • Stoðsvið og sviðsstjórar(kynjahlutf. kk/kvk: 43% / 57%)

Skoðun á kynjaskiptingu í starfseiningunum leiðir í ljós að þar urðu litlar breytingar milli ára. Sá munur sem var fyrir óx óverulega nema í einni starfseiningu þar sem hlutföllin voru jöfnust og breyttust ekki milli ára.

Frá afhendingu viðurkenningar Jafnvægisvogarinnar. Jafnréttisráð sendi hvatningu til framkvæmdaráðs um að skrifa undir viljayfirlýsingu um að vinna að markmiðum jafnvægisvogarinnar til 2027. Það var gert og 12. október fór Einar Ingi Hermannsson fulltrúi ráðsins suður og tók við viðurkenningu við hátíðlega athöfn, sem m.a. var streymt um allt land. Margt starfsfólk NO fylgdist með úr matsalnum í hádegishléi sínu.

Í október kynnti annar fulltrúi ráðsins innleiðingu jafnlaunavottunar hjá NO á fundi erlendra sérfræðinga á vegum Jafnréttisstofu í HA.

Í nóvember var haldinn sameiginlegur vinnufundur stjórnenda og jafnréttisráðs, í þeim tilgangi að móta hugmyndir að jöfnun kynjahlutfalla og aukinn fjölbreytileika innan Norðurorku. Niðurstöðurnar voru níu hugmyndir, hér í mikilvægisröð:

  • Ímyndarvinna, skapa opinn og jákvæðan starfsvettvang og „auglýsa“ það beint og óbeint. Þannig eykst áhugi allra á okkar störfum. Kynna NO út á við sem vinnustað með mikinn fjölbreytileika þegar verið er að kynna fyrirtækið. Að fyrirtækið vilji hafa fjölbreytileika.
  • Íslenskan. Bjóða upp á íslenskukennslu á vinnutíma. Tungumálaörðugleikar hafa áhrif. 
  • Fræðsla. Virða menningu, trú og kynhneigð. Án fordóma. Byggja upp þekkingu og skilning.
  • Jaðarhóparnir. Með því að hlúa vel að okkar „jaðarhópum“ (byggja upp mismunandi félagsnet).
  • Auglýsa eftir öllum kynjum (neuro diversity).
  • Tryggja að öll upplifi sig velkomin og hluta af hóp.
  • Bjóða upp á sérstaka búningsaðstöðu.
  • Taka nema – Mentorakerfi, taka við fólki og leiðbeina og kenna störf.
  • Starfagreining með tilliti til getu og takmarkana.

Kynbundinn launamunur

Launagreining var unnin í Pay Analytics eins og undanfarin ár og notast var við gögn úr október-launakeyrslunni. Kynbundinn launamunur mældist 0,6% konum í vil, sem er lækkun frá síðasta ári þegar munurinn mældist 0,8% konum í vil. Launamunur undir 1% telst afar lítill og er það ánægjuleg niðurstaða í sjálfu sér.

Þegar mælt er út frá heildarlaunum eru karlar að meðaltali með 1,1% hærri laun en konur en þegar mælt er út frá föstum launum eru konur með 0,6% hærri laun en karlar.

Heildarlaun eru föst laun ásamt yfirvinnu og óreglulegum greiðslum, t.d. vaktaálagi.

Föst laun eru grunnlaun ásamt föstum launaliðum.

Grunnlaun þeirra sem eru virkir í starfi og á launaskrá eru miðuð við 100% starf án aukagreiðslna.

Launamunurinn er vel innan við sett markmið Norðurorku frá í mars um að kynbundinn launamunur fastra launa skuli vera innan við 2,5%.

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina