Fara í efni

Á starfsárinu 2022 voru haldnir 12 stjórnarfundir, auk eigendafundar. Á aðalfundi 2022 var stjórn kosin en í framhaldi af sveitastjórnarkosningum var ný stjórn kosin á hluthafafundi í júlí 2022. Þá skipa stjórn auk mín Geir Kristinn Aðalsteinsson varaformaður, Hilda Jana Gísladóttir ritari, Sif Jóhannesar Ástudóttir og Þórhallur Jónsson. Áheyrnarfulltrúi minni hluthafa er Þórunn Sif Harðardóttir sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps.

Rekstur Norðurorku hefur gengið vel undanfarin ár en þó reyndist árið 2022 dálítið erfitt vegna verðbólgu. Það er ljóst að verðskrár okkar halda ekki í við verðlag. Það er mikilvægt að endurskoða þær oftar og því hefur stjórn samþykkt að hægt væri að gera breytingar fjórum sinnum á ári í stað einu sinni á ári eins og verið hefur.

Eins og fram kom á ársfundi síðasta árs þá hafa komið fram vísbendingar um jarðhitakerfið við Hjalteyri sé að verða fyllnýtt. Unnið hefur verið að jarðhitarannsóknum sem munu halda áfram af fullum krafti í sumar. Auk þess stendur til að efla fræðslu um notkun á heita vatninu okkar og verður aukinn þungi settur í þau mál í haust.

Á fundi í lok síðasta árs var farið yfir ráðgefandi erindi frá lögfræðingi sem í framhaldinu var flutt fyrir bæjarstjórn. Það sem vakti helst athygli mína úr erindinu voru í fyrsta lagi tillögur sem snúa að eigendastefnu fyrirtækis. Það er vettvangur eigenda til að koma stefnu sinni á framfæri við stjórn sem framfylgir svo þeirri stefnu. Í dag er ekki til eigendastefna fyrir Norðurorku og því liggur fyrir að allir eigendur muni vinna að því að klára hana fyrir næsta eigendafund. Í öðru lagi þótti mér athyglisverð umræða um skipun stjórnar sem í dag er eingöngu skipuð pólitískum fulltrúum úr hópi eigenda. Að mínu mati er þarft að ræða hvort við viljum stíga það skref að auglýsa eftir tveimur fulltrúum sem ekki yrðu pólitískt skipaðir.

Það getur verið áskorun fyrir stjórnarfólk að sitja beggja vegna borðs þegar setið er í stjórn Norðurorku. En mikilvægt er að við höfum alltaf hag Norðurorku að leiðarljósi þegar við setjumst að stjórnarborðinu. Ég tel að með ofangreindri breytingu fáum við tækifæri til að ná fram breiðari sjónarmiðum sem vonandi skila sér í betri ákvörðunum.

Stjórn Norðurorku hefur samþykkt að selja Orkey. Það hefur lengi verið ljóst að annað hvort þurfi að fara í miklar fjárfestingar eða selja fyrirtækið til aðila sem virkilega hafa metnað og umhyggju fyrir því. Orkey er nú í söluferli og ég er sannfærður um að það verði til hagsbóta fyrir alla aðila, að ég tali nú ekki um svæðið okkar í heild sinni.

Áskoranir í metanframleiðslu hafa varla farið framhjá neinum. Í dag er Norðurorka að flytja metan frá Reykjavík til Akureyrar með tilheyrandi kostnaði og umhverfisáhrifum til að anna eftirspurn. Auðvitað er þetta stórt mál fyrir Akureyrarbæ og Norðurorku þar sem fjárfest hefur verið í metanknúnum bifreiðum. Til að mynda hefur Norðurorka dregið úr notkun metans undanfarið til að hægt sé að láta strætisvagna bæjarins og ferlibíla hafa forgang.

Norðurorka er sterkt félag og býr yfir miklum möguleikum til þess að styðja við og fjölga tækifærum í samfélagi okkar með ýmsum hætti og það höfum við vissulega gert í gegnum tíðina með góðum árangri. Við megum hins vegar ekki fjarlægjast kjarnarekstur Norðurorku, sem er veitustarfsemi og mikilvægt er að muna að þar liggur okkar megin ábyrgð. Veitustarfsemin kallar á fulla athygli stjórnar og stjórnenda ekki síst nú þegar áfram eru „skaflar“ framundan.

Í gegnum tíðina hefur Norðurorku verið falið að sjá um ýmis verkefni sem fyrirtækið á ekki endilega að standa í. Norðurorka er veitufyrirtæki og fyrirtækið á að geta einbeitt sér að þeirri starfsemi. Stjórn þarf að tryggja að svo geti orðið. Þetta verður stjórn að hafa að leiðarljósi þegar verið er að fara í gegnum þau verkefni sem eru á höndum Norðurorku.

Norðurorka hf. er framúrskarandi fyrirtæki árið 2022 og er þar með á meðal þeirra 2% íslenskra fyrirtækja sem uppfylla skilyrði greiningar Creditinfo á framúrskarandi fyrirtækjum. Þessi viðurkenning, sem fyrirtækið hefur hlotið á hverju ári í tíu ár, er fyrst og fremst viðurkenning á því að allt starfsfólk Norðurorku leggur sig fram um að skila góðu verki á hverjum degi, allt árið um kring. 

Norðurorka hf. hlaut einnig viðurkenningu jafnvægisvogarinnar á árinu. Tilgangur Jafnvægisvogarinnar er m.a. sá að auka á jafnvægi kynja í efsta lagi stjórnunar hjá fyrirtækjum í íslensku viðskiptalífi og að varpa ljósi á þau fyrirtæki sem náð hafa markmiðum Jafnvægisvogarinnar um virka jafnréttisstefnu og jafnt kynjahlutfall í framkvæmdastjórn. Við erum stolt af þeim árangri sem Norðurorka hefur náð.

Nýr forstjóri, Eyþór Björnsson, hóf störf í ágúst og tók hann við af Helga Jóhannessyni sem starfað hefur sem forstjóri sl. 10 ár. Vil ég nota tækifærið og þakka Helga kærlega fyrir hans traustu og góðu störf og óska ég honum alls hins besta í framtíðinni. Einnig væntum við mikils af störfum Eyþórs og veit ég að hann mun standa undir þeim væntingum.

Ég vil að lokum þakka forstjóra, starfsfólki Norðurorku ásamt félögum mínum í stjórninni fyrir gott og farsælt samstarf á árinu. Þá vil ég einnig færa hluthöfum bestu þakkir fyrir ánægjulega samvinnu á árinu. 

Hlynur Jóhannsson
Stjórnarformaður