Gæðamál
Norðurorka afhendir kalt vatn, heitt vatn og rafmagn til viðskiptavina og sér um að fráveita sé í lagi. Þetta eru gríðarlega mikilvægir innviðir sem samfélagið reiðir sig á allan sólarhringinn, alla daga ársins.
Til að tryggja að fyrirtækið sinni sínum mikilvægu verkefnum vel þarf gott utanumhald. Það gerir Norðurorka m.a. með vottuðu gæðakerfi sem tryggir kerfisbundnar úttektir óháðra aðila en fyrirtækið hefur haldið vottun sinni frá upphafi. Á hverju ári tekur Heilbrigðiseftirlitið sýni úr öllum vatnsveitum Norðurorku til örverugreiningar auk þess sem tekin eru sýni til heildarefnagreiningar. Reglulegt vinnslueftirlit fer fram í hitaveitunni þar sem m.a. er mælt efnainnihald vatnsins og lagt mat á heildarafkastagetu vinnslusvæðanna. Árlega eru gerðar spennugæðamælingar í rafveitu til að fylgjast með því að kröfur til spennugæða, sem fram koma í reglugerðum og stöðlum, séu uppfylltar. Í fráveitunni eru framkvæmdar reglulegar sýnatökur meðfram strandlengju Akureyrar og einnig er fylgst með álagi í kringum skilgreind þynningarsvæði.
Frá árinu 2011 hefur Norðurorka rekið innra eftirlitskerfi með sölumælum sínum sem hluta af gæðakerfi fyrirtækisins. Þessi þáttur gæðakerfisins snýr að því að tryggja réttar mælingar og að mælaskipti fari fram á réttum tíma.
Þó að reglulegt eftirlit með gæðum sé nauðsynlegt snúast gæðamál um svo miklu meira. Gott gæðakerfi ýtir undir að hver einasti starfskraftur taki eftir og leiti að tækifærum til að tryggja gæði betur, bæta verkferla, auka öryggi og minnka álag á starfsfólk svo eitthvað sé nefnt. Hjá Norðurorku eru stöðugt í gangi umbótaverkefni, bæði stór og smá, sem miða að því að bæta fyrirtækið á allan mögulegan hátt. Að reka gæðastjórnunarkerfi skv. ISO 9001 er verkefni sem snertir alla þætti fyrirtækisins og skuldbinding stjórnenda og þátttaka starfsfólks er þar lykilatriði. Starfsfólk Norðurorku er stolt af fyrirtækinu og leggur metnað sinn í að bæta það stöðugt.
Gott gæðakerfi snýst nefnilega ekki einungis um að gera vel heldur snýst það um að gera sífellt betur.
Öryggismál
Norðurorka leggur áherslu á að ekkert verk sé svo mikilvægt að hætta megi öryggi eða heilsu fólks vegna þess. Fyrirtækið leggur metnað í að útvega þann öryggisbúnað sem þurfa þykir til að tryggja öryggi starfsfólks og almennings vegna framkvæmda.
Utanumhald atvikaskráninga
Haldin er skrá yfir slys og hættuleg atvik hjá Norðurorku og er starfsfólki skylt að tilkynna strax ef það verður fyrir slíku. Vinnuslys árið 2022 voru fimm, þar af eitt fjarveruslys. Óásættanlegar aðstæður, ótryggur búnaður eða annað sem ógnað getur öryggi og/eða heilsu er einnig skráð ásamt næstum slysum og voru þessar skráningar tíu á árinu. Við hverja skráningu fær næsti yfirmaður póst um atvikið og sér hann til þess að úrbætur séu gerðar eins fljótt og auðið er, í samvinnu við þann sem skráði.
Öryggisnefnd Norðurorku
Hjá Norðurorku starfar öryggisnefnd sem fundar að lágmarki átta sinnum yfir árið og oftar ef þurfa þykir. Fundina sitja einnig öryggisstjóri og verkefnastjóri öryggismála. Farið er m.a. yfir allar slysaskráningar og ábendingar varðandi öryggismál og fylgst með því að úrbætur séu framkvæmdar.
Öryggisfræðsla
Öryggisnefndin setur öryggismola til starfsfólks Norðurorku inn á Teams síðu fyrirtækisins. Öryggismolarnir fjalla um ýmislegt sem varðar heilsu og öryggi starfsfólks.
Í árlegum fræðsluvikum Norðurorku er m.a. boðið upp á ýmsa öryggisfræðslu fyrir allt starfsfólk og á fræðsluvikunum í ár var m.a. boðið upp á skyndihjálparnámskeið, fræðslu um tölvuöryggi og farið yfir áhættumat eins og gert er ár hvert. Þar fer starfsfólk yfir áhættumat verka og gerir breytingar m.t.t. meira öryggis ef einhverjar eru. Í febrúar fór svo öryggisnefndin á forvarnaráðstefnu VÍS í Hörpuna en það er mikilvægur liður í símenntun nefndarinnar.