Fara í efni

Heitavatnsnotkun á Akureyri hefur vaxið hratt undanfarin ár og vex að meðaltali um 2,1% milli ára. Árið 2022 var aukningin heldur meiri en í meðalári eða 2,8%. Mikið hefur verið byggt á Akureyri og nágrenni en þegar horft er til aukningar á íbúafjölda virðist sem hver einstaklingur sé að nota aukið magn hitaveituvatns. Aukningin mun útheimta áframhaldandi rannsóknir til öflunar á heitu vatni sem og frekari framkvæmdir til að koma því til Akureyrar. 

Austanverður Eyjafjörður

Töluverð aukning hefur verið á heitavatnsnotkun í austanverðum Eyjafirði og hefur stofnlögn hitaveitunnar sem liggur þar um verið á mörkum þess að geta annað öllum notendum á álagstímum. Síðastliðið sumar var lagður fyrsti áfangi nýrrar stofnlagnar um austanverða Eyjafjarðarsveit og var sá áfangi frá dælustöð á Jódísarstöðum og norður að Þverá. Fyrsti leggurinn var 200 mm í þvermál en grennist síðan í 150 mm. Eldri stofnlögn var 63 mm og því um mikla stækkun að ræða. Á næstu árum verður haldið áfram að leggja nýjan stofn norður fjörðinn.

Svalbarðseyri hola SE-01

Hola SE-01 á Svalbarðseyri þjónaði hitaveitu Svalbarðseyrar allt til ársins 2003 þegar að Norðurorka tók við rekstri veitunnar og lagði lögn frá Brunná og eftir Svalbarðsströndinni. Vegna aukinnar notkunar á heitu vatni hefur stofnlögnin verið á mörkum þess að geta annað öllum notendum á álagstímum. Til að létta á lögninni frá Brunná var ákveðið að nota vatn frá SE-01 og blanda við vatn frá Brunná. SE-01 hefur síðustu 20 ár eingöngu verið notuð fyrir bæinn Svalbarð en úr henni kemur sjálfrennandi 55°C heitt vatn. Fara þurfti í mikla smíðavinnu í dælustöð á Svalbarðseyri og hófst sú vinna árið 2021 en lauk fyrri part árs 2022. Að jafnaði er notaðir um 1-2 l/s úr holu SE-01 til að blanda við vatn frá Brunná, en yfir sumartímann er minna magn notað til blöndunar.

Reykjaveita

Rekstur nýrrar dælustöðvar, sem sett var upp á Hróarsstöðum í lok árs 2021 til að auka flutningsgetu stofnlagnar til Grenivíkur, gekk vel á árinu 2022. Strax í fyrstu kuldaköflum ársins sást að hún bætti verulega afköst veitunnar. Samhliða byggingu á dælustöðinni voru settir upp fjórir þrýstiminnkara skápar á notendur sem staðsettir eru fyrir neðan dælustöðina. Ekki hafði verið ástæða fram til þessa að þrýstiminnka hjá þessum notendum en vegna aukins þrýstings á stofnlögninni sem fylgdi tilkomu dælustöðvarinnar var þetta nauðsynlegt.

Skógarböðin og framkvæmdir vegna þeirra

Í febrúar árið 2022 lauk lagningu á lögnum frá Vaðlaheiðargöngum og að Skógarböðum og var vatni hleypt á hitaveitulögnina þann 17. febrúar. Strax daginn eftir var farið að hleypa vatni í böðin sem opnuðu formlega í maí. Hitaveitulögnin er 250 mm í þvermál með 355 mm einangrunarkápu.

Dæluupptektir hitaveitu

Skipt var um dælu í holu HJ-19 en hún er elst af vinnsluholunum þremur á Hjalteyri. Um var að ræða reglubundna endurnýjun. Dælan var síkkuð úr 77 m í 110 m dýpi þar sem vatnsborð hefur verið að lækka í vinnsluholunum á Hjalteyri.

Ýmsar framkvæmdir

Lögð var hitaveita í nýtt hverfi nyrst á Akureyri, Holtahverfi norður. Hitaveitan var lögð samhliða gatna- og göngustígagerð. Tengt var úr eldri lögn sem liggur meðfram Krossanesbraut en hún var einnig endurnýjuð að hluta til að anna aukinni notkun á heitu vatni vegna nýja hverfisins.

Miklar framkvæmdir voru á Hvannavöllum og Tryggvabraut vegna endurgerðar gatna þar sem m.a. var sett hringtorg og götur endurnýjaðar að nokkru leyti. Veitulagnir undir götum og gangstéttum voru endurnýjaðar ásamt því að heimlagnir voru endurnýjaðar í hús við Hvannavelli.

Lögð var hitaveita í Týsnes sem er ný gata í iðnaðarhverfinu nyrst á Akureyri, en til að tengja götuna þurfti að lengja stofnlögn í Óðinsnesi. Fljótlega eftir að dreifikerfi var lagt var farið að tengja nýbyggingar við veituna. Á síðastliðnu sumri var lögð hitaveita í nýja íbúðargötu, Hulduheima í landi Halllands austan Eyjafjarðar þar sem gert er ráð fyrir níu húsum við götuna og þegar er búið að tengja eitt þeirra við hitaveituna. Hitaveita var lögð í Skógarhlíð í Fnjóskadal þar sem eru níu lóðir en ekki enn byrjaðar byggingaframkvæmdir. Á Oddeyri voru endurnýjaðar hitaveituheimtaugar í nokkur hús samhliða spennubreytingum í rafveitunni og í Lundargötu var að auki endurnýjaður stofn í gangstétt. Að venju voru tengdar heimtaugar í nýbyggingar á Akureyri en einnig voru tengdar heimtaugar í nýbyggingar í Glæsibæ norðan Akureyrar þar sem framkvæmdir halda áfram.

Á síðustu árum hefur verið unnið að því að fækka hitaveitubrunnum í dreifikerfi veitunnar, en þeir eru fjölmargir. Brunnarnir þjóna ekki lengur sínum upprunalega tilgangi og hafa orðið fjölmargar bilanir í þeim. Brunnarnir eru fjarlægðir samhliða endurnýjun gangstétta hjá Akureyrarbæ og voru fjarlægðir fjórir brunnar við Skarðshlíð, tveir í Brekkugötu, einn við Hlíðarbraut og þrír við Hvannavelli og Tryggvabraut.

Þónokkuð er af gömlum borholum á veitusvæðum Norðurorku sem ekki eru í notkun og þjóna ekki lengur tilgangi. Nokkrar slíkar holur eru í Hrísey og var sett lok á holurnar rétt undir yfirborði jarðar og jarðvegur settur yfir. Einnig voru fjarlægðir tveir grunnar af gömlum dæluskúrum sem búið var að rífa ofan af grunnunum enda leggur Norðurorka áherslu á að ganga vel frá eftir sig og í kringum sín mannvirki. 

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina

 

Ársskýrsla Norðurorku