Undanfarin ár hafa rannsóknir verið veigamikill þáttur í starfsemi Norðurorku en þær eru að stærstum hluta unnar í samstarfi við Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR. Rannsóknir byggja annars vegar á því að fylgjast vel með þeim auðlindum sem verið er að nýta hverju sinni, svokallað vinnslueftirlit, en hins vegar á að huga að mögulegum framtíðarvinnslusvæðum.
Ólafsfjörður
Að beiðni Norðurorku tóku Íslenskar orkurannsóknir saman yfirlit um jarðhitastaði í Ólafsfirði með það að markmiði að fá samantekt um stöðu rannsókna á svæðinu. Niðurstaðan var birt í skýrslu sem kom út árið 2020 þar sem fjallað var um sextán jarðhitastaði. Í framhaldi af þeirri vinnu beindist athyglin að svæði við vestanvert Ólafsfjarðarvatn sem var þá myndað með hitamyndavél úr dróna og niðurstöður bornar saman við eldri mælingar. Árið 2022 voru boraðar sex hitastigulsholur til að afmarka betur hitauppstreymi svæðisins. Einnig var fylgst með eldri holum sem hluta af vinnslueftirliti á svæðinu. Rannsóknum verður haldið áfram á árinu 2023.
Hjalteyri
Eins og áður hefur komið fram tókst borun holunnar HJ-21 á Hjalteyri árið 2018 með ágætum og gæti þar verið um að ræða eina vatnsgæfustu lághitaholu á landinu. Vinnsla úr henni hefur verið í gangi frá síðari hluta árs 2019 og hefur vinnslugeta svæðisins aukist til muna.
Í vinnslueftirlitsmælingum fyrri part árs 2022 komu fram vísbendingar um aukið klórmagn í jarðhitavatninu sem benda til snefilmagns af sjó. Strax var gripið til þess ráðs að auka sýnatökur úr vinnsluholum á svæðinu ásamt því að kalla til sérfræðinga ÍSOR til að kanna hvaðan umrædd klórmengun gæti verið að koma. Í gegnum tíðina hefur Norðurorka verið að fylgjast með Arnarnesstrýtunum og kom m.a. að því að koma fyrir hitamælum í strýtunum til athugunar á útstreymi á heitu vatni úr þeim í þeim tilgangi að kanna hvort þær tengist jarðhitakerfinu. Rannsóknir standa enn yfir með sérfræðingum ÍSOR með það að markmiði að greina hvaðan klórmengun berst inn í jarðhitakerfið. Málið er tekið mjög alvarlega þrátt fyrir að styrkur klórs sé langt innan við viðmiðunarmörk en ljóst er að þetta mun hafa áhrif á framtíðarvinnslugetu svæðisins.
Svalbarðseyri
Haustið 2022 hóf Norðurorka að nýta sjálfrennsli vatns úr holu SE-01 til notkunar á Svalbarðseyri með uppblöndun við vatn sem kemur frá Laugalandi í Eyjafirði en hefur síðan þá eingöngu verið nýtt fyrir sveitabæinn Svalbarð síðan. Þess má geta að SE-01 sá hitaveitunni á Svalbarðseyri fyrir vatni áður en stofnlögnin var lögð frá Akureyri árið 2004. Talið er að nýta megi holuna betur með lagfæringum á fóðringu og með því að dæla úr henni.
Ytri Hagi
Áfram var haldið með rannsóknir á jarðhitasvæðinu að Ytri-Haga árið 2022. Jarðskjálftanet ÍSOR vaktar jarðskjálfta á svæðinu auk þess sem Segulmælingar eru framkvæmdar til að greina bergganga og legu þeirra. Boraðar voru hitastigulsholur í útjaðri svæðisins til að afmarka svæðið betur auk þess sem þrjár djúpar rannsóknarholur, sem eru grunnurinn að staðsetningu vinnsluholu á svæðinu, voru staðsettar og verða þær boraðar á árinu 2023.
Vaðlaheiði
Rannsóknir jarðhitans í Vaðlaheiðinni hafa verið færðar aftar í forgangsröðina. Byggir það m.a. á því að erfitt og dýrt er að koma við rannsóknum á heiðinni. Fylgst er með efnasamsetningu heita vatnsins úr göngunum sem hluta af vinnslueftirliti Norðurorku.
Almennt
Í ljósi góðs árangurs af jarðhitaleit með hitastigulsborunum ákvað Norðurorka að kanna betur órannsökuð svæði í Eyjafirði með frekari borunum. Byrjað var að bora haustið 2022 en reiknað er með að borun ljúki fyrripart árs 2023, en í heildina verða þetta um 30 holur. Boraðar voru holur m.a. á Ólafsfirði, við mynni Þorvaldsdals í Dalvíkurbyggð, á Akureyri og sjö holur í austanverðum Eyjafirði frá Þórisstöðum í Svalbarðsstrandarhrepp að Fagrabæ í Grýtubakkahrepp. Hér má sjá myndir frá hitastigulsborunum.
Holurnar eru hitamældar að lokinni borun og reiknaður út sk. hitastigull berggrunnsins. Í framhaldinu gerir ÍSOR heildstætt hitastigulskort af Eyjafirði þar sem nýttar eru niðurstöður mælinga úr nýju holunum ásamt mælingum úr eldri holum. Reiknað er með að kortið verði klárt árið 2023.