Fara í efni
 

Á árinu 2022 fjárfesti Norðurorka fyrir tæpar 58 miljónir í tækjum og ýmsum stærri verkfærum. Eins og sjá má á þessari upphæð þá varð töluverð endurnýjun í tækjaflota Norðurorku, en á meðalári er fjárfest fyrir um 25 milljónir.

Þar má helst telja til Valtra dráttarvél með fjölplóg sem mun nýtast við ýmis verkefni, eins og snjómokstur á starfsstöðum Norðuroku og einnig mun hún geta flutt nýju minigröfuna á krókheysisvagni á verkstað og auka þannig fjölbreytileika tækjaútgerðar fyrirtækisins. Seldur var gamall sturtuvagn sem notaður hefur verið með eldri dráttarvél og er gert ráð fyrir að sú dráttarvél verði seld á árinu 2023. Í febrúar kom ný 2,9 tonna minigrafa sem von hafði verið á í lok árs 2021 og keypt var lítil jarðvegsþjappa til notkunar á þeim stöðum sem stærri þjöppur komast ekki að. Í desember var ákveðið að fjárfesta í notuðum krókheysisvagni með skúffu til að nota við vinnu í görðum og á gangstéttum og einnig sem flutningsvagn fyrir nýju minigröfuna sem er aðeins of þung til að hægt sé að flytja hana á kerru aftan í vinnuflokkabíl.

Bílafloti Norðurorku

Á árinu voru tvær bifreiðar seldar, annarsvegar 2011 árgerð af Chevrolet Captiva og hinsvegar 2005 árgerð af Nissan pallbíl. Í staðinn voru keyptir tveir nýir bílar, Peugeot e-partner og Skoda Enyaq. Báðir þessir bílar eru 100% rafbílar og er það stefna Norðurorku að kaupa vistvænar bifreiðar og vinnuvélar sé þess nokkur kostur. Einnig var keyptur Ford Ranger pallbíll sem tilheyrir kerfisdeild en fyrir voru komnir þar fjórir Ford F150 bílar og þar með hefur bílafloti deildarinnar verið endurnýjaður. Starfsmenn kerfisdeildar þurfa oft á tíðum að fara á torfæra staði vegna eftirlits og viðhalds á veitukerfum Norðurorku og þurfa því að hafa öfluga bíla sem einnig geta dregið þungar kerrur. Enn eru því miður ekki komnir rafmagnsbílar sem uppfylla þessar kröfur. Norðurorka hefur fram að þessu keypt metan/bensín F150 pallbíla í þessum tilgangi en slíkur bíll var ekki fáanlegur þegar þessi endurnýjun fór fram og því er bíllinn með dísel mótor, en uppfyllir að sjálfsögðu allar ströngustu mengunarkröfur sem í dag eru.

Varðandi framtíðar endurnýjun bílaflotans þá verður leitast við að endurnýja í vistvæna bíla eins og mögulegt er þjóni það hagsmunum Norðurorku.

 

Ársskýrsla Norðurorku

       

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina