Fara í efni

Norðurorka hóf framleiðslu metangass úr gömlu ruslahaugunum á Glerárdal fyrir ofan Akureyri í ágústlok árið 2014. Til að byrja með var salan nokkuð í takt við væntingar en vöxturinn hefur verið minni en áætlað var í upphafi. Salan á árinu 2022 var rúmlega 280.000 Nm3 og jókst um 5% frá árinu á undan. Það sem takmarkar sölu er framleiðslugeta haugsins en ekki eftirspurn viðskiptavina.

Á árinu 2022 var unnið að aðgerðum til að bæta rekstraröryggi og gæði framleiðslunnar. Þar ber helst að nefna að viðhaldsstjórnun hefur verið bætt og eftirlit með framleiðslunni aukið. Þetta er gert til þess að halda söfnun og hreinsun á metangasi eins stöðugri og á eins miklum afköstum og unnt er.

Ljóst þykir að framleðslugeta haugsins hafi náð hámarki og komi til með að minnka jafnt og þétt næstu ár. Áskorun næstu missera verður því að hámarka framleiðslumagnið án þess að fórna gæðum. Samningaviðræður við aðra framleiðendur metangass eru hafnar með það fyrir augum að flytja metan til svæðisins. Þetta er gert til þess að halda þeim markaði sem byggður hefur verið upp fyrir metan á svæðinu og skapa grundvöll fyrir frekari metanvæðingu. Frekari metanvæðing getur þó ekki hafist fyrr en metanframleiðsla við stýrðar aðstæður hefst á svæðinu enda eru flutningar á metangasi bæði kostnaðarsamir og mengandi. Ekki er ljóst á höndum hverra slík framleiðsla kemur til með að vera, hvar eða hvernig. Hlutverk Norðurorku er að safna því metani sem myndast á gömlu ruslahaugunum á Glerárdal og vinna úr því eldsneyti. Það er verkefni samfélagsins að finna lausnir til frekari framleiðslu á metangasi og hefur Norðurorka bent á mikilvægi þess að hefja þá vinnu.

Hámarksframleiðslugeta haugsins á Glerárdal er talsvert minni en ráðgert var í upphafi verkefnisins. Nú þegar við stöndum frammi fyrir þessari áskorun er gott að rifja upp að frá upphafi hefur Norðurorka safnað, hreinsað og þjappað rúmlega 1,4 milljón Nm3 af metangasi. Þetta hefur sparað innflutning jafn margra lítra af jarðefnaeldsneyti og sparað losun á því sem nemur 25 þúsund tonnum af koltvísýringi. Verkefnið hefur því sannarlega skilað samfélaginu ávinningi sem við getum verið stolt af.

Fimm metan knúnir ferlivagnar og fjórir strætisvagnar eru í rekstri hjá Akureyrarbæ ásamt götusóp og minni metan bílum. Norðurorka er nú með 15 metan bíla í rekstri.

 

 

Ársskýrsla Norðurorku

 

 

Ársskýrsla Norðurorku

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina