Fara í efni

Rekstrarhagnaður samstæðunnar var tæpar 629 milljónir króna eftir skatta. Fjárfestingar voru 2.103 milljónir króna og jukust um 671 milljón frá fyrra ári. Nokkuð var um að verkefni flyttust milli ára og ný verkefni bættust við. Rekstur veitnanna, sérstaklega hitaveitunnar krefst áfram mikilla fjárfestinga. Veltufé frá rekstri er aðalmælikvarði á afkomu og þar með möguleika veitnanna á að fjármagna framkvæmdir með eigin fé. Veltufé frá rekstri var tæpar 1.862 milljónir króna á árinu 2023 og hækkaði um 367 milljónir frá fyrra ári. Miðað við fjárfestingar upp á rúmlega 2,1 milljarð þá vantar 240 milljónir til þess að veltufé frá rekstri standi undir fjárfestingum. Það bil, og meira til, þarf að brúa með lánsfé.

Mikil aukning er í heitavatnsnotkun í samfélaginu, langt umfram fólksfjölgun. Aukningunni fylgir mikil áskorun hvað varðar rannsóknir, leit og fjárfestingar. Ekki er fyrirfram ljóst að nýjar sjálfbærar jarðhitaauðlindir séu til reiðu í Eyjafirði og kostnaðurinn við að virkja þær hefur aukist enda sífellt lengra að sækja. Það er mikilvægt að muna það að auðlindir okkar í heitu og köldu vatni eru ekki óþrjótandi. Sóun eykur og hraðar fjárfestingaþörf í innviðum sem aftur kallar á hækkanir á verðskrá félagsins. Því er mikilvægt að halda til haga þeim tækifærum sem felast í því að fara vel með og forðast sóun.

Á árinu 2023 var, líkt og síðustu ár þar á undan, mikið lagt í jarðhitaleit og rannsóknir með það að markmiði að mæta aukinni og hratt vaxandi þörf fyrir heitt vatn á starfssvæði Norðurorku. Norðurorka hefur aukið umtalsvert við fjármagn til rannsókna, þróunar og nýsköpunar og er ekki vanþörf á. Boraðar voru rúmlega 30 hitastigulsholur í Eyjafirði til að finna mögulegan, nýtanlegan jarðvarma. Byrjað var að bora rannsóknarholur á Ytri Haga á árinu. Þegar þær rannsóknarholur hafa verið boraðar verður hægt að staðsetja vinnsluholu sem ráðgert er að bora 2025 og taka í notkun 2026.

Auk veitnanna á Akureyri og nágrenni, á Norðurorka og rekur hitaveitu í Ólafsfirði og Reykjaveitu í Fnjóskadal. Þær veitur þarfnast athygli enda er hlutfallsleg aukning í heitavatnsnotkun ekki minni þar en á Akureyri. Afkastageta Reykjaveitu hefur verið aukin með því að setja dælu á lögnina við Hróarsstaði og fyrirhugað er að bæta við annarri dælu á Reykjum. Væntingar eru til þess að aðgerðirnar í Reykjaveitu muni anna aukningu í eftirspurn á því svæði í áratug eða svo. Í Ólafsfirði hefur Norðurorka staðið fyrir umfangsmiklum rannsóknum undanfarin ár til að staðsetja nýja vinnsluholu og er rannsóknum nú lokið. Undirbúningur fyrir borun og virkjun varma er í gangi og ráðgert að bora vinnsluholu á árinu 2025.

Á fyrri hluta ársins 2023 var undirrituð viljayfirlýsing milli Norðurorku og álþynnuverksmiðjunnar TDK á Krossanesi um að kanna fýsileika þess að nýta glatvarma frá TDK til upphitunar á bakrásarvatni úr kerfum Norðurorku. Ráðgjafar á vegum Norðurorku hafa unnið frumhönnun, kostnaðaráætlun og tímalínu verkefnis auk áfangaskiptingar. Það er eftir miklu að slægjast þar sem hægt er að fanga glatvarma og nýta, sérstaklega þar sem varminn er innan bæjarmarkanna og þar af leiðandi stutt og tiltölulega ódýrt að sækja hann.

Á undanförnum árum hefur mikil endurnýjun átt sér stað í dreifikerfi rafmagns. Meðal annars hefur verið unnið markvisst að spennubreytingum í þeim tilgangi að styrkja dreifikerfið enn frekar til að mæta áformum stjórnvalda um orkuskipti og til að taka við aukinni notkun, meðal annars hleðslu rafbíla. Fjárhagslegar áskoranir fylgja viðhaldi og endurnýjun í rafveitu og öðrum veitum vegna þess að slík verkefni skapa ekki auknar tekjur á móti fjárfestingum. Af þeim sökum þarf að sækja tekjur í gegnum verðskrá veitnanna til að mæta kostnaði við viðhald og endurnýjun.

Hreinsistöð fráveitu hefur sannað gildi sitt en á þeim tíma sem hún hefur verið starfrækt hafa tæplega 100 tonn af rusli verið síuð úr fráveituvatninu sem annars hefðu endað út í sjó, auk þess sem gerlamengun við strandlengju Akureyrar hefur minnkað umtalsvert. Hreinsistöðin er því svo sannarlega mikil umhverfisbót fyrir samfélagið allt við Eyjafjörð.

Orku- og veitugeirinn stendur frammi fyrir hratt vaxandi áskorunum sem snúa að net- og upplýsingaöryggi. Grunninnviðir eru eftirsóknarverð skotmörk tölvu- og netárása og fyrirtæki í þessum geira verða að byggja upp og þróa öflugar varnir á því sviði. Norðurorka leggur mikla áherslu á að halda uppi öflugum vörnum og halda vöku sinni sem m.a. birtist í aukinni áherslu fyrirtækisins á öryggis- og gæðamál á þessum vettvangi.

Norðurorka er og hefur verið framsækið fyrirtæki hvað varðar umhverfis- og loftlagsmál. Fyrirtækið tekur hlutverk sitt alvarlega og leggur sitt af mörkum m.a. með skógrækt og framleiðslu á metani. Stór hluti ökutækja fyrirtækisins er vistvænn og fer sá hluti sífellt vaxandi.

Það er að mörgu að hyggja í rekstrinum. Eðli starfsemi veitufyrirtækja er þannig að fjárfestingar eru ekki mjög sýnilegar þar sem veitukerfin eru að stærstum hluta grafin í jörðu. Þegar ný íbúðahverfi byggjast upp eru veitulagnir það fyrsta sem þarf að leggja, vatnsveita, fráveita, rafveita og hitaveita. Fjárfestingar í slíkum lagnakerfum hlaupa yfirleitt á hundruðum milljóna, jafnvel á milljörðum. Tekjur til að mæta þeim fjárfestingum koma á áratugum og ef tafir verða á uppbyggingu viðkomandi hverfis frestast tekjustreymið að sama skapi.

Við sjáum fram á það að fjárfestingarþörf verði áfram mikil, svo langt sem við getum áætlað. Ekki er á næstu árum líklegt að veltufé frá rekstri muni standa undir fjárfestingarþörf miðað við núverandi stöðu. En höfum í huga að Norðurorka er öflugt fyrirtæki sem stendur styrkum fótum með sterka eiginfjárstöðu. Það er engin ástæða til að örvænta en við erum sannarlega með krefjandi úrlausnarefni, það er að vinna fyrirtækið út úr þessari stöðu og snúa þróuninni við svo tekjur veitnanna standi undir fjárfestingum.

Ég þakka stjórn Norðurorku fyrir ánægjulegt samstarf á árinu 2023 og sömuleiðis þakka ég starfsfólki Norðurorku fyrir góð störf, eljusemi og metnað og fyrir að halda uppi góðum starfsanda í krefjandi störfum.

Eyþór Björnsson
Forstjóri