Fara í efni

Heitavatnsnotkun á Akureyri hefur vaxið hratt undanfarin ár og vex að meðaltali um 2,1% milli ára. Árið 2023 var aukningin þó nokkuð meiri en í meðalári eða tæp 4%. Mikið hefur verið byggt á Akureyri og í nágrenni en þegar horft er til aukningar á íbúafjölda er hver einstaklingur að meðaltali að nota aukið magn hitaveituvatns. Aukningin mun útheimta áframhaldandi rannsóknir til öflunar á heitu vatni sem og frekari framkvæmdir til að koma því til Akureyrar. 

Hjalteyrarlögn

Klárað var að leggja fjórða og síðasta áfanga nýrrar stofnlagnar frá Hjalteyri til Akureyrar. Lögnin sjálf er 500 mm í þvermál í 720 mm einangrunarkápu. Að þessu sinni var lagt frá Skjaldarvík og að gatnamótum Hlíðarbrautar og Hörgárbrautar eða um 5,2 km. Framkvæmdir hófust í byrjun mars og var þeim lokið í byrjun nóvember. Lögnin mun auka afhendingaröryggi ´´a heitu vatni frá Hjalteyri til muna.

Langamýri

Samhliða spennubreytingum í Löngumýri var unnið að endurnýjun á hitaveitunni. Lögð var ný lögn milli Löngumýrar 14 og 36 Einnig voru endurnýjaðar heimlagnir í flest húsin þar á milli. Verkefni sem þetta er bæði tímafrekt og krefjandi þar sem verið er að vinna með lifandi kerfi og allt gert til þess að loka þurfi sem sjaldnast fyrir notendur. Áfram verður unnið við spennubreytingar í Mýrunum á næstu árum og verða aðrar veitur endurnýjaðar í leiðinni.

Þéttbýliskjarnar í Eyjafirði 

Lögð var hitaveita í tvo byggðarkjarna í austanverðum Eyjafirði. Annars vegar við Brúarland þar sem gert er ráð fyrir 12 nýjum einbýlishúsalóðum og hins vegar við Birkiland en þar er gert ráð fyrir 10 einbýlishúsalóðum. Einnig var lagt í annan áfanga Hagabyggðar í Glæsibæ en þar er gert ráð fyrir 12 nýjum einbýlishúsalóðum.

Dæluupptektir hitaveitu

Skipt var um dælu í holu LJ-5 en hún er elst af vinnsluholunum þremur á Syðra Laugalandi. Um var að ræða reglubundna endurnýjun. Einnig var skipt um dælu í holu HN-10 á Botni þar sem dælan í holunni bilaði.

Ýmsar framkvæmdir

Lokið var við framkvæmdir á Hvannavöllum vegna endurgerðar götu en þar voru veitulagnir endurnýjaðar. Í Hrísey var endurnýjuð lögn í Austurvegi en einnig var unnið við lagfæringar á loftskilju sem staðsett er við hliðina á vinnsluholunni. Á Grenivík var lögð ný lögn í Höfðagötu.  Að venju voru tengdar heimlagnir í nýbyggingar. Á síðustu árum hefur verið unnið að fækkun hitaveitubrunnum í dreifikerfi veitunnar, en þeir eru fjölmargir. Með breyttri tækni og fjölbreyttari efnum eru brunnarnir orðnir úreltir. Því eru þeir fjarlægðir samhliða endurnýjun gangstétta hjá Akureyrarbæ eða öðrum framkvæmdum. Fjarlægðir voru tveir brunnar við Fögrusíðu, tveir á Óseyri, einn í Oddeyrargötu, einn í Langholti, einn í Undirhlíð, einn á Hvannavöllum, einn í Helgamagrastræti og einn í Munkaþverárstræti.  

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina

 

Ársskýrsla Norðurorku