Fara í efni


Undanfarin ár hafa rannsóknir verið veigamikill þáttur í starfsemi Norðurorku en þær eru að stærstum hluta unnar í samstarfi við Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR. Rannsóknir byggja annars vegar á því að fylgjast vel með þeim auðlindum sem verið er að nýta hverju sinni, svokallað vinnslueftirlit, en hins vegar á að huga að mögulegum framtíðarvinnslusvæðum.

Ólafsfjörður

Að beiðni Norðurorku tóku Íslenskar orkurannsóknir saman yfirlit um jarðhitastaði í Ólafsfirði með það að markmiði að fá samantekt um stöðu rannsókna á svæðinu. Niðurstaðan var birt í skýrslu sem kom út árið 2020 þar sem fjallað var um sextán jarðhitastaði. Í framhaldi af þeirri vinnu beindist athyglin að svæði við vestanvert Ólafsfjarðarvatn sem var þá myndað með hitamyndavél úr dróna og niðurstöður bornar saman við eldri mælingar.  Árið 2022 voru boraðar sex hitastigulsholur til að afmarka betur hitauppstreymi svæðisins. Út frá niðurstöðum var talið nauðsynlegt að bæta við tveimur holum sem boraðar voru 2023. Einnig var fylgst með eldri holum sem hluta af vinnslueftirliti á svæðinu auk þess sem gerðar voru segulmælingar með dróna til að afmarka betur jarðhitasvæðið. Út frá þessum og fleiri rannsóknum hefur ný vinnsluhola verið staðsett sem ráðgert er að verði boruð 2025.

Hjalteyri

Í vinnslueftirlitsmælingum fyrri part árs 2022 komu fram vísbendingar um aukið klóríðmagn í jarðhitavatninu sem benda til snefilmagns af sjó. Strax var gripið til þess ráðs að auka sýnatökur úr vinnsluholum á svæðinu ásamt því að kalla til sérfræðinga ÍSOR til að kanna hvaðan umrædd klóríðmengun gæti verið að koma. Í gegnum tíðina hefur Norðurorka  fylgst með Arnarnesstrýtunum og kom m.a. að því að koma fyrir hitamælum í strýtunum til athugunar á útstreymi á heitu vatni í þeim tilgangi að kanna hvort þær tengist jarðhitakerfinu. Rannsóknir af ýmsu tagi stóðu yfir með það að markmiði að greina hvaðan klóríðmengun berst inn í jarðhitakerfið, afgerandi niðurstöður hafa þó ekki fengist. Klóríðmengun fór vaxandi á árinu 2023 og er ljóst að um er að ræða takmarkandi þátt í nýtingu þessa öfluga jarðhitakerfis.

Mið Eyjafjörður

Unnið var að rannsóknaráætlun um jarðhitasvæði við Botn og Hrafnagil sem verið hefur ráðgáta í gegnum tíðina. Viðnámsmælingar voru gerðar á árinu til að afmarka betur svæðið og er unnið að úrvinnslu þeirra. Frekari rannsóknir verða framkvæmdar 2024.

Svalbarðseyri

Haustið 2022 hóf Norðurorka að nýta sjálfrennsli vatns úr holu SE-01 til notkunar á Svalbarðseyri með uppblöndun við vatn sem kemur frá Laugalandi í Eyjafirði. Þess má geta að SE-01 sá hitaveitunni á Svalbarðseyri fyrir vatni áður en stofnlögnin var lögð frá Akureyri árið 2004. Talið er að nýta megi holuna betur með lagfæringum á fóðringu og með því að dæla úr henni. Komin er út greinargerð um lagfæringu holunnar og er stefnt að viðgerð 2024. Þó ekki sé um mikla orku að ræða getur það skipt sköpum á þessum stað í kerfinu.

Ytri Hagi

Áfram var haldið með rannsóknir á jarðhitasvæðinu að Ytri-Haga árið 2023. Jarðskjálftanet ÍSOR vaktar jarðskjálfta á svæðinu. Borun á tveimur djúpum rannsóknaholum hófst í lok árs og verður fram haldið á árinu 2024. Markmið með rannsóknum á svæðinu er að staðsetja djúpa vinnsluholu sem ráðgert er að boruð verði 2025.

Almennt

Í ljósi góðs árangurs af jarðhitaleit með hitastigulsborunum ákvað Norðurorka að kanna betur órannsökuð svæði í Eyjafirði með frekari borunum. Byrjað var að bora haustið 2022 og lauk borunum á árinu 2023. Úrvinnsla stendur yfir og er gert ráð fyrir að niðurstöður verði birtar í skýrslu árið 2024. 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina