Fara í efni

Hreinsistöð Óseyri

Hreinsistöð fráveitu á Óseyri var tekin í notkun á haustdögum 2020 en stöðin er mikil umhverfisbót fyrir allt samfélagið við Eyjafjörð. Um er að ræða grófsíun sem síar rusl úr fráveituvatninu og er árangur góður. Árið 2023 voru síuð um 40 tonn af rusli úr fráveituvatninu og hafa þá verið síuð tæplega 100 tonn af rusli frá því stöðin var tekin í notkun. Ef ekki væri fyrir stöðina, þá hefðu þessi 100 tonn runnið til sjávar. Hreinsistöð fráveitu fékk starfsleyfi útgefið af Heilbrigðiseftirliti Norðurlands þann 23. maí 2023 og er það stór áfangi í fráveitumálum á Akureyri.

Dælustöðvar

Unnið var að endurbótum á rafbúnaði í dælustöð við Hafnarstræti og komið fyrir rennslismæli við stöðina og var hún að því loknu tengd við stærri þrýstilögn sem áður hafði verið lögð. Með þessum aðgerðum hafa afköst stöðvarinnar aukist og fækkar mjög þeim skiptum sem stöðin fer á yfirfall t.d. í hlákutíð. Einnig hefur verið unnið að undirbúningi að endurnýjun búnaðar í dælustöð við Aðalstræti ásamt tengingu við skjákerfi.

Fráveitukerfið

Ýmsar framkvæmdir hafa verið við fráveitukerfi á árinu 2023. Ný stofnlögn var lögð samhliða framkvæmdum við nýjan knattspyrnuvöll á KA svæðinu og lagnir fóðraðar samhliða. Framkvæmdir við Holtahverfi og Móahverfi voru á árinu ásamt framkvæmdum við Sjafnarnes og stækkun á þrýstilögn frá Hörgársveit sem unnin var samhliða framkvæmdum við nýja aðveituæð hitaveitu frá Hjalteyri. Þétting byggðar og ýmsar breytingar í skipulagi hafa leitt til þess að endurnýja hefur þurft lagnir og breyta legu. Ef möguleiki er á eru þessar framkvæmdir nýttar til þess að aðskilja regnvatn og skólp sem er ein af forsendum fyrir bættri hreinsun fráveituvatns. Þessi aðskilnaður skólps og regnvatns er stórt verkefni sem mun taka áratugi að ljúka.

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina

Ársskýrsla Norðurorku