Fara í efni


Norðurorka hefur unnið markvisst að kynningarmálum á liðnu ári í takt við kröfur samfélagsins um aukna upplýsingagjöf. 

Vefur Norðurorku

Á vef fyrirtækisins er hægt að nálgast allar upplýsingar um starfsemi Norðurorku og þá þjónustu sem fyrirtækið veitir. Þar birtast meðal annars fréttir frá helstu framkvæmdum, tilkynningar um þjónusturof ásamt ýmsum fróðleiksmolum sem snerta veitustarfsemi og orkunýtingu. Þess má geta að á vefnum geta notendur einnig skráð sig á Mínar síður og séð þar orkureikninga, línurit yfir notkun auk þess að senda inn álestur. Norðurorka vill vera í góðu sambandi við notendur og leggur sig fram um að miðla upplýsingum hratt og örugglega.

Samfélagsmiðlar

Einn liður kynningarmála er aukinn sýnileiki á samfélagsmiðlum. Miðlarnir Facebook og Instagram voru nýttir í auknum mæli til að koma skilaboðum á framfæri, segja frá framkvæmdum, miðla myndum, auglýsa viðburði og styðja virkni heimasíðu. Fylgjendum á samfélagsmiðlum Norðurorku fer sífellt fjölgandi enda um öflugan og lifandi vettvang til samskipta að ræða.

Vitundarvakning um stöðu hitaveitu og heitavatnsnotkun

Norðurorka fór af stað með vitundarvakningu um heitt vatn í haust undir yfirskriftinni „Hitamál“. Markmiðið með vitundarvakningunni var að vekja athygli íbúa á starfssvæði Norðurorku á alvarlegri stöðu hitaveitu, hvetja þá til umhugsunar um eigin notkun á heitu vatni og benda á leiðir til ábyrgrar orkunotkunar. Hönnunargrunnur í tengslum við vitundarvakninguna var unninn af Geimstofunni en auglýsingaáætlun var unnin innanhúss auk flestra auglýsinga.  Almennar auglýsingar voru birtar á samfélagsmiðlum, vefmiðlum, í prentmiðlum, útvarpi og á skiltum. Norðurorka stóð einnig fyrir sýningu á Glerártorgi í október þar sem gestum verslunarmiðstöðvarinnar gafst tækifæri á að skoða veggspjöld með boðskap vitundarvakningarinnar. Myndbandagerð var í höndum Egils Antonssonar kvikmyndagerðarmanns og var myndband, sem framleitt var í tengslum við vitundarvakninguna, til sýninga á útisvæðinu í Sundlaug Akureyrar.

Sýnileiki í fjölmiðlum

Fjölmiðlar sýndu Norðurorku mikla athygli árið 2023 og fjallað var um Norðurorku í sjónvarpi, útvarpi, vef- og prentmiðlum. Fjallað var um ýmis málefni sem snerta fyrirtækið en helsta umfjöllunarefnið snéri að áskorunum í hitaveitu. Óvænta athygli hlaut þó leit að leka í hitaveitukerfum á haustmánuðum sem framkvæmd var með drónum. Fjallað var um lekaleitina víða á vefmiðlum sem og í sjónvarpsfréttum Ríkissjónvarpsins enda um áhugaverða leið að ræða til að koma í veg fyrir töp í kerfinu og gera því kleift að nýta hvern dropa betur.

Kynningar og heimsóknir

Norðurorka leggur metnað í taka vel á móti gestum sem óska eftir að koma í heimsókn til að kynna sér starfsemi fyrirtækisins ásamt þeim störfum sem þar eru unnin. Móttökur af þessu tagi gefa fyrirtækinu tækifæri til að koma ákveðnum sjónarmiðum á framfæri auk þess að vekja athygli á Norðurorku sem ákjósanlegum vinnustað í framtíðinni.

Gestir ársins hlaupa á hundruðum og eru á breiðum aldri. Hópar af öllum skólastigum, allt frá leikskóla og upp í háskóla hafa komið í heimsókn ásamt félagasamtökum og ýmsum fyrirtækjum. Á meðal heimsókna má nefna Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna sem kom hingað í sína árlegu heimsókn með nemendur frá tólf þjóðlöndum. Hlutverk skólans er að veita ungum sérfræðingum frá þróunarlöndunum þjálfun í rannsóknum og nýtingu jarðhita. Orku- og veitufyrirtæki eru dugleg að miðla reynslu og þekkingu sín á milli og er samstarf þeirra á milli mikilvægt. Starfsfólk úr öðrum veitufyrirtækjum kom til að kynna sér Norðurorku og ýmsar lausnir sem hér hafa verið þróaðar.

Norðurorka tók þátt í ýmsum viðburðum á árinu 2023. Starfamessan var haldin í Háskólanum á Akureyri í mars þar sem elstu grunnskólanemunum gefst tækifæri á að kynnast atvinnustarfsemi í bænum og þeim möguleikum sem bíða þeirra í framtíðinni. Þar kynnti Norðurorka þau margvíslegu störf sem unnin eru hjá fyrirtækinu. Í júní tók fyrirtækið þátt í Vísindaskóla unga fólksins sem starfræktur er á vegum Háskólans á Akureyri á hverju sumri fyrir ungmenni á aldrinum 11-13 ára. Eitt af námskeiðum skólans í ár bar yfirskriftina „Vatnið er verðmæti“ og fól í sér lærdóm um ábyrga orkunotkun. Í nóvember fór fram útivistarsýningin Vetrarlíf í reiðhöll Léttis í hestahúsahverfinu ofan við Akureyri. Á sýningunni vakti Norðurorka athygli á vatnsverndarsvæðum í Hlíðarfjalli þar sem mikil útivist er stunduð allt árið um kring. Vatn er ein verðmætasta auðlind jarðar og því er mikilvægt að ganga vel um vatnsverndarsvæðin og láta strax vita ef grunur leikur á mengun.

Til viðbótar við allt ofan talið hefur starfsfólk Norðurorku farið víða og haldið fyrirlestra og kynningar ef óskað hefur verið eftir því, hvort sem er í skólum, fyrirtækjum eða hjá félagasamtökum.

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina