Fara í efni

 

Samorka

Norðurorka er aðili að SAMORKU, samtökum orku- og veitufyrirtækja í landinu og í gegnum þau aðili að Samtökum atvinnulífsins. Samorka er málsvari orku- og veitufyrirtækja og beitir sér fyrir farsælli þróun í orku‐ og veitumálum á Íslandi. Íráðum og nefndum Samorku situr fjölmargt starfsfólk þeirra fyrirtækja sem eiga aðild að samtökunum.  Á meðal megin verkefna Samorku eru innri málefni svo sem kynningar-, fræðslu- og félagsstarfsemi aðildarfyrirtækjanna.

Fallorka ehf.

Fallorka ehf. er dótturfélag Norðurorku og hefur með höndum framleiðslu og sölu á raforku til viðskiptavina um land allt. Félagið starfrækir fjórar vatnsaflsvirkjanir við Eyjafjörð, þ.e. tvær í Glerá og tvær í Djúpadalsá. Árið 2023 varð orkuframleiðslan 43,8 GWst sem er rúmlega 4% samdráttur frá fyrra ári en vatnsbúskapur á landinu var talsvert lakari en árið á undan.

Auk þessa rekur Fallorka 11 hleðslustöðvar á Eyjafjarðarsvæðinu fyrir rafbíla og hefur sett upp sólarsellur og tvær litlar vindmyllur í Grímsey til að framleiða umhverfisvæna orku og draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti í eynni.

Undirbúningur vegna mögulegrar þriðju virkjunar í Djúpadalsá stendur enn yfir. Rannsóknum á jarðfræði við fyrirhugað stíflustæði og á vatnsrennsli í ánni lauk á árinu 2022 og nú er í gangi  vinna við frumhönnun og mat á arðsemi.  Félagið er auk þess með rannsóknarleyfi vegna Núpár í Sölvadal við Eyjafjörð og er unnið að rennslismælingum þar.

Afar hörð samkeppni ríkir á smásölumarkaði raforku þar sem nýir aðilar hafa haslað sér völl á undanförnum árum. Þrátt fyrir það, sem og erfiðar ytri aðstæður, þá batnaði afkoma Fallorku umtalsvert milli ára. Engu að síður varð tap á rekstrinum 4,3 mkr en veltufé frá rekstri jákvætt um 84,7 mkr.

Skógarböð ehf.

Norðurorka keypti 4,54% hlut í Skógarböðum ehf. á árinu 2023 í samræmi við ákvæði viljayfirlýsingar sem gerð var í aðdraganda þess að framkvæmdir við lagningu vatnslagna úr Vaðlaheiðargöngum til Skógarbaða hófust. Norðurorka lagði umtalsverða fjármuni og vinnu í það verkefni en sér fram á að fjárfesting muni borga sig til lengri tíma litið. Starfsemi Skógarbaða ehf. hefur farið mjög vel af stað enda er hér um að ræða vel heppnað og metnaðarfullt verkefni sem þegar hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana.

Vistorka ehf.

Vistorka kom áfram að vinnu við uppfærslu á aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum en sú vinna hófst á árinu 2022. Gert er ráð fyrir að uppfærð aðgerðaáætlun komi út fyrri hluta árs 2024 en gildandi áætlun má finna hér. Einnig hélt áfram undirbúningsvinna tengd uppbyggingu líforkuvers í Eyjafirði og í árslok 2023 var stofnað formlegt félag með stjórn til að halda utan um framhaldið. Vinnu við mótun aðgerðaáætlunar Akureyrarbæjar lauk á árinu og var henni skilað inn með tæplega 50 aðgerðum til formlegrar meðhöndlunar og afgreiðslu í stjórnkerfi bæjarins. 

Vistorka, Norðurorka, Akureyrarbær, Orkusetur og Terra stóðu að innleiðingu á söfnunarkerfi á notaðri matarolíu og fitu á Akureyri fyrir nokkrum árum með góðum árangri. Um er að ræða mjög mikilvægt hringrársarverkefni þar sem komið er í veg fyrir að verðmæti verði að úrgangi. Hráefninu er beint í réttan farveg þar sem hann endar sem græn orka sem kemur í staðinn fyrir jarðefnaeldsneyti. Sorpa og Orkuveitan í Reykjavík ákváðu að innleiða sambærilegt kerfi á höfuðborgarsvæðinu með aðstoð Vistorku.

 Vistorka hefur frá stofnun sótt um nokkra styrki á hverju ári úr opinberum sjóðum fyrir þeim verkefnum sem félagið vinnur að á hverjum tíma. Hleðslustöðvar, metanframleiðsla, lífdísilframleiðsla, orkuframleiðsla með vind og sól, skógrækt og nýting moltu eru dæmi um verkefni sem félagið hefur fengið styrki til að vinna. Þegar allt er lagt saman nema þessir styrkir yfir 100 mkr. frá upphafi sem hafa verið nýttir til að vinna áfram og raungera verkefnin sem falla að hlutverki félagsins.

Árið 2023 tók félagið í fyrsta skipti þátt í umsóknum sem hlutu styrk úr Evrópusjóðum og verður byrjað að vinna í á árinu 2024. Gert er ráð fyrir að sækja um fleiri slíka styrki á komandi árum.

Tengir hf.

Tengir hf. er hlutdeildarfélag Norðurorku hf. og er eignarhluti félagsins rúm 38%. Fyrirtækið rekur ljósleiðaranet á Norðurlandi. Starfsemi Tengis hefur vaxið mikið undanfarin ár og er tekjugrunnur félagsins sterkur. Á árinu 2023 voru miklar fjárfestingar í ljósleiðaranetinu og var mikið um nýlagnir á Akureyri þar sem nýtingarhlutfall í nýtengingum var mjög gott. Þá var lagt í þéttbýli Vopnafjarðar, ásamt Siglufirði. Það var síðan lagt á Raufarhöfn í samstarfi við Mílu.

NORAK ehf.

NORAK ehf. er hlutdeildarfélag Norðurorku hf. en Norðurorka hf., Rafeignir ehf. og Álag ehf. eiga fyrirtækið að jöfnu. Félagið á og rekur spennuvirki við álþynnuverksmiðju TDK í Krossanesi sem spennir niður raforku sem kemur frá aðveitustöð Landsnets við Rangárvelli. Rekstur félagsins gekk vel á árinu 2023 en reksturinn er fjárhagslega stilltur af miðað við samningstíma verksmiðjunnar til ársins 2028.

Hrafnabjargavirkjun ehf.

Hrafnabjargavirkjun ehf. er að 48,75% hlut í eigu Norðurorku, 48,75% hlut í eigu Orkuveitu Húsavíkur og 2,5% eru í eigu Atvinnueflingar Þingeyjarsýslu. Félagið var stofnað um fýsileika þess að nýta vatnsorku í Skjálfandafljóti ofan Bárðardals.
Í Rammaáætlun III sem Alþingi samþykkti á árinu 2022voru allir fjórir nýtingakostir félagsins settir í verndarflokk. Það er því áfram mikil óvissa um framtíð félagsins.

Íslensk orka ehf.

Norðurorka á 36,26% hlut í félaginu Íslensk orka ehf., 32,29% eru í eigu Landsvirkjunar og 31,45% eru í eigu Orkuveitu Húsavíkur ohf. Félagið heldur utan um jarðhitaréttindi, borholur og rannsóknir á jarðhitakerfum í Öxarfirði, verkefni sem enn er í biðstöðu. Fram hafa komið áhugasamir aðilar um nýtingu á heita vatninu til raforkuframleiðslu en það er mat stjórnar Íslenskrar orku að hagkvæmara sé fyrir félagið og heimafólk að markaðssetja heitt vatn af svæðinu til einhvers konar iðnaðarframleiðslu. Það virðast þó vera að opnast fleiri tækifæri í landeldi sem nýtt geta jarðhitann og fleiri kostir geta komið til skoðunar.

Netorka hf.

Norðurorka á 7,73% hlut í Netorku hf. sem gegnir því hlutverki að vera sameiginlegt mæligagna- og uppgjörsfyrirtæki fyrir íslenskan raforkumarkað. Hlutverk Netorku hefur vaxið í ljósi aukinnar samkeppni á raforkumarkaði og þar af leiðandi fleiri aðilaskiptum.

Orkey ehf.

Norðurorka hefur átt Orkey ehf. að fullu frá árinu 2019 en Orkey rekur lífdísilverksmiðju á Akureyri. Lífdísill er unninn úr innlendu hráefni, svo sem notaðri steikingarolíu frá veitingahúsum og heimilum.

Í júlí 2023 seldi Norðurorka fyrirtækið. Vaxandi áhugi var fyrir rekstrinum og eftirspurn eftir lífdísli hefur verið að aukast, bæði sem eldsneyti og í aðra vinnslu. Stjórn Norðurorku taldi því tímabært að hleypa öðrum aðilum að sem áfram myndu þróa starfssemi Orkeyjar og auka veg fyrirtækisins enda er lífdísilframleiðsla ekki hluti af kjarnastarfsemi Norðurorku. Hinn nýji eigandi, Gefn ehf., stefnir á áframhaldandi rekstur Orkeyjar á Akureyri.

EIMUR

EIMUR er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, SSNE, Norðurorku og Orkuveitu Húsavíkur um bætta nýtingu orkuauðlinda og aukna nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra. Starf EIMS er um margt óáþreifanlegt og lýtur frekast að því að sækja tækifæri, afla styrkja til nýsköpunar og þróunar, auka þekkingu, umtal og möguleika aðila á að fjölnýta auðlindastrauma orkuauðlinda sem eru á svæðinu til verðmætasköpunar.

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina