Fara í efni


Á árinu 2023 störfuðu 83 einstaklingar hjá Norðurorku í 73 stöðugildum, 57 karlar og 26 konur. Á fjármálasviði störfuðu sex konur, á framkvæmdasviði sem jafnframt er fjölmennasta sviðið störfuðu 39 einstaklingar yfir árið og þar af tvær konur, á skrifstofu forstjóra störfuðu fimm einstaklingar og þar af einn karl, á veitu- og tæknisviði 12 þar af þrjár konur, á þjónustusviði 18 og þar af átta karlar.

Ellefu einstaklingar komu til starfa í sumarafleysingar og tímabundin verkefni, fimm konur og sex karlar. Fjórir einstaklingar voru í tímabundnum verkefnum á framkvæmdasviði, þrír á veitu- og tæknisviði, þrír á þjónustusviði og einn í fjármál. Mælaálestur var, eins og undanfarin ár, að mestu í höndum verktaka en fimm álesarar komu tímabundið inn á launaskrá á meðan á verkefninu stóð.

Starfsmannavelta dróst saman úr 11,6% í 7,8%. Sex létu af störfum hjá fyrirtækinu en tíu hófu störf á árinu.

Á árinu voru veittar þrjár starfsaldursviðurkenningar. Baldur Viðar Jónsson náði 10 ára starfsaldri, Stefán Steindórsson átti 20 ára starfsafmæli og Snæbjörn Þorvaldsson hvorki meira né minna en 40 ára starfsafmæli.

Starfsmannafundir og -samtöl

Alls voru haldnir sjö starfsmannafundir á árinu. Fundirnir eru alla jafna haldnir í matsal fyrirtækisins en jafnframt er boðið upp á þátttöku starfsfólks í gegnum Teams. Það var talsvert nýtt í kjölfarið af Covid en heyrir nú til algerra undantekninga þegar engar takmarkanir eru á því að fólk geti komið saman og hist augliti til auglitis.

Lagt er upp með að starfsmannasamtöl fari fram tvisvar á ári, í mars og október. Starfsmannasamtöl sem fara áttu fram í október 2022 drógust yfir lengra tímabil og því afar stutt í að komið var að fyrra samtali ársins 2023. Öllu starfsfólki bauðst að eiga starfsmannasamtal þó almennt væri það ekki boðað með formlegum hætti í það skiptið. Í október fóru af stað starfsmannasamtöl með hefðbundnum hætti. Líðan í starfi er áhersluatriði í öllum starfsmannasamtölum en á árinu var jafnframt lögð áhersla á fagmennsku. Markmiðið með því er að starfsfólk þekki hvað það felur í sér að starfa af fagmennsku hjá Norðurorku. Það þekki þær væntingar sem gerðar eru til þeirra og að stjórnandi og starfsmaður ræði sameiginleg markmið næstu mánaða.

Ráðstefnur og kynningar

Ársfundur Samorku var haldinn í mars. Umfjöllunarefnið var áskoranirnar og tækifærin í orkuskiptunum auk kynningar á nýrri greiningu á fjárfestingaþörf í orku- og veituinnviðum.

Fagþing hita-, vatns- og fráveitna var haldið á Selfossi 3.-5. maí með þátttöku 13 fulltrúa Norðurorku. Mörg áhugaverð erindi voru flutt og framlag Norðurorku voru m.a erindi forstjóra um færniuppbyggingu, erindi verkefnastjóra umhverfis- og loftslagsmála um aukna orkunýtni jarðhita og erindi fagstjóra hita- og vatnsveitu undir yfirskriftinni brunavatn og skipulagsmál.

Síðar í maí tóku fagstjóri rafveitu og tveir rafvirkjar Norðurorku þátt í Elfack í Gautaborg. Um er að ræða mjög stóran viðburð, sem spannar fjóra daga. Þar fer fram vörusýning, þar sem fjöldinn allur af fyrirtækjum sýnir vörur sínar og allt það nýjasta í rafmagnsmálum, auk ráðstefnu með upp undir 30 erindi á dag.

Norræna fráveituráðstefnan Nordiwa fór fram í Gautaborg dagana 5.-7. september og Norðurorka átti þar einn fulltrúa. Viðburðurinn er stór þar sem fram fer vörusýning og fjöldi áhugaverðra erinda um allt það áhugaverðasta í fráveitumálum.

Mannauðsdagurinn var haldinn í Hörpu 5. október og Norðurorka sendi þrjá stjórnendur til þátttöku en um er að ræða einn stærsta viðburð stjórnunar og mannauðsmála á Íslandi.

Sviðsstjóri Veitu- og tæknisviðs fór til JeleniaGóra í Póllandi í október í boði EES. Í nóvember kom svo hópur þaðan til Akureyrar. Tilgangurinn var að kynna sér ýmislegt í rekstri sveitarfélaga t.d. upplýsingatækni og hitaveiturekstur ásamt skipulagsmálum. Hlutverk sviðsstjóra var að kynna hitaveiturekstur og jarðhitanýtingu en það er nokkur jarðhiti í JeleniaGóra.

Seinna í október fóru verkstjóri framkvæmdaþjónustu ásamt tveimur vélfræðingum í góðum félagsskap starfsfólks nokkurra veitufyrirtækja í heimsókn til AVK í Danmörku, en AVK framleiðir loka og lagnaefni.

Þriðja nóvember fór hin árlega kynnisferð starfsfólks fram en slíkar ferðir eru liður í að auka þekkingu starfsfólks á starfsemi fyrirtækisins. Rúmlega þrjátíu starfsmenn fóru í ferðina sem heitið var m.a. inn á Laugaland í Eyjafjarðarsveit, í ýmis mannvirki innanbæjar á Akureyri, á borsvæðið við Ytri Haga og á Arnarnes.

Samgöngu- og heilsueflingarstyrkir

Fyrirtækið hefur hvatt starfsfólk til þess að ganga eða hjóla til vinnu með því að greiða samgöngustyrk í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra á hverju ári.

32 einstaklingar skráðu vistvænar ferðir til og frá vinnu árið 2023 og þar af fengu 28 þeirra greiddan samgöngustyrk. Flestir fengu greiddan styrk fyrir maí en það er áhugavert að flestir dagar voru skráðar í janúar eða alls 380. Það þarf ekki að koma á óvart að í júlí eru skráðar fæstar ferðir enda flestir sem njóta sumarleyfa í þeim mánuði. Samtals skráði starfsfólk 3.789 daga allt árið, sem er lítilleg fækkun frá árinu áður. Í heildina greiddi Norðurorka samgöngustyrk fyrir 228 mánuði ársins 2023 en til samanburðar voru þeir 244 árið 2022, 196 árið 2021 og 184 árið 2020.

51 einstaklingur nýtti heilsueflingarstyrk frá Norðurorku, sem er fjölgun um 12 frá árinu 2022.

Endurmenntun 

Að venju fóru árlegar fræðsluvikur fram í janúar. Þær spönnuðu tvær vinnuvikur frá 8. til 19. janúar. Þegar allt er talið voru haldin 31 mismunandi námskeið og ef talinn er fjöldi haldinna námskeiða, sum voru haldin oftar en einu sinni fyrir mismunandi hópa, voru þau alls 45 talsins og töldu samtals 118 kennslustundir.

Jafnréttismál

Jafnréttisráð var á sínu þriðja starfsári og fundaði átta sinnum á árinu 2023. Ráðið er skipað fimm sjálfboðaliðum, tveimur konum og þremur körlum úr hópi starfsfólks til viðbótar við mannauðsstjóra.

Eitt af hlutverkum ráðsins er að stuðla að fræðslu um jafnréttismál og fjölbreytileika og framlag ráðsins til fræðsluvikna á árinu var námskeiðið Hinsegin 101, þar sem fjallað var um grunnhugtök og orðanotkun tengt hinseginleikanum (kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og kyntjáning). Námskeiðið féll í góðan jarðveg enda skemmtilega framsett og upplýsandi á tímum hraðra breytinga í átt að auknum fjölbreytileika.

Skoðun á kynjaskiptingu í starfseiningunum leiðir í ljós að þar urðu litlar breytingar milli ára. Konur eru sem fyrr 32% starfsfólks fyrirtækisins og karlar 68%.

Norðurorka fékk viðurkenningu jafnvægisvogarinnar annað árið í röð og fulltrúi jafnréttisráðs, Glódís Hildur Heiðarsdóttir lagði land undir fót og tók við viðurkenningunni við hátíðlega athöfn, sem m.a. var streymt um allt land. Margt starfsfólk NO fylgdist með úr matsalnum í hádegishléi sínu.

Kynbundinn launamunur

Launagreining var unnin í PayAnalytics eins og undanfarin ár og notast var við gögn úr launakeyrslu ágústmánaðar. Kynbundinn launamunur mældist 0,8% konum í vil, sem er hækkun frá síðasta ári þegar munurinn mældist 0,6%. Launamunur undir 1% telst afar lítill og er það ánægjuleg niðurstaða í sjálfu sér.

Þegar mælt er út frá heildarlaunum eru karlar að meðaltali með 1,5% hærri laun en konur en þegar mælt er út frá föstum launum eru konur með 0,8% hærri laun en karlar. Heildarlaun eru föst laun ásamt yfirvinnu og óreglulegum greiðslum, t.d. vaktaálagi. Föst laun eru grunnlaun ásamt föstum launaliðum. Launamunurinn er vel innan við sett markmið Norðurorku frá í mars 2022 um að kynbundinn launamunur fastra launa skuli vera innan við 2,5%.

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina