Fara í efni

Helstu framkvæmdir vatnsveitunnar á árinu 2023 voru tenging stofnlagnar frá Vaðlaheiðargöngum að Leirustíg og færsla Vaglalagna vegna uppbyggingar Móahverfis.  

Leirustígur

Akureyrarbær hóf framkvæmdir á göngu- og hjólastíg meðfram Leiruvegi og samhliða því lagði Norðurorka 355 mm stofnlögn vatnsveitu undir stíginn. Í framtíðinni rennur vatn um lögnina frá Vaðlaheiðargöngum til Akureyrar. Verkmörk voru vestan við Eyjafjarðarbrú og því á enn eftir að tengja lögnina þaðan og að afleggjara að Skógarböðum þangað sem búið var að leggja lögnina. Eins á eftir að tengja lögnina við innanbæjarkerfið á Akureyri.

Færsla á Vaglalalögnum

Frá Vöglum í Hörgársveit til Akureyrar liggja tvær samsíða stofnlagnir vatnsveitu. Sú eldri er 315 mm og sú yngri 400 mm. Lagnirnar lágu í gegnum skipulagssvæði hins nýja Móahverfis og því þurfti að færa þær utar. Lagnirnar liggja nú samsíða göngustíg meðfram Borgarbraut en færa þurfti lagnirnar á 850 m kafla.

Langamýri

Samhliða spennubreytingum í Löngumýri voru endurnýjaðar heimlagnir vatnsveitu í flest hús milli Löngumýrar 14 og 36. Áfram verður unnið við spennubreytingar í Mýrunum á næstu árum og verður einhver endurnýjun á vatnsveitunni samhliða þeim framkvæmdum.

Þéttbýliskjarnar í Eyjafirði

Lögð var vatnsveita í tvo byggðarkjarna í austanverðum Eyjafirði. Annars vegar við Brúarland þar sem gert er ráð fyrir 12 nýjum einbýlishúsalóðum og hins vegar við Birkiland en þar er gert ráð fyrir 10 einbýlishúsalóðum. Einnig var lagt í annan áfanga Hagabyggðar í Glæsibæ en þar er gert ráð fyrir 12 nýjum einbýlishúsalóðum.

Ýmsar framkvæmdir á árinu

Önnur verkefni á árinu voru til dæmis lagning heimlagna í nýbyggingar, reglubundnar rennslismælingar á brunahönum, endurnýjun á lögn við Kjarnabraut fyrir tjaldsvæðið á Hömrum auk þess sem lokið var við framkvæmdir á Hvannavöllum. Það var því í ýmis horn að líta hjá vatnsveitunni á árinu fyrir utan allt hefðbundið viðhald.

 

Til baka - Yfirlit yfir starfsemina

Ársskýrsla Norðurorku