Norðurorka sér um dreifingu rafmagns innan Akureyrar. Rafmagnsþjónusta fyrirtækisins þjónar einnig öðrum veitum félagsins sem starfa í alls átta sveitarfélögum. Verkefni rafvirkja Norðurorku eru því fjölbreytt og snúa jöfnum höndum að háspennu og lágspennu sem og að stjórnkerfum veitna.
Nýframkvæmdir og viðhald
Aðveitustöðvar Norðurorku eru tvær og tveir aflspennar á hvorum stað til að tryggja betra afhendingaröryggi. Í Kollugerði og Þingvallastræti var lokið við reglubundið ferli vegna viðhalds- og þjónustuskoðana fyrir spenna 1 og 2 sem og þrepaskipta, samhliða því var hluti búnaðar endurnýjaður.
Í aðveitustöð við Þingvallastræti var 66 kV liðavernd virkniprófuð fyrir rofareiti og virkni staðfest, auk þess sem búnaður var tengdur inn á stjórnvaka sem gerir starfsfólki m.a. fært að fylgjast með álagi, stöðu og viðvörunum. Viðhald og þjónusta rafbúnaðar eru til þess fallin að auka áreiðanleika með það að leiðarljósi að lágmarka ófyrirséð atvik. Mikilvægt er að verkefni sem þessi séu vel undirbúin og skipulögð, ekki síst með tilliti til rekstrar- og öryggismála.
Á árinu voru byggðar þrjár nýjar dreifistöðvar og þær teknar í notkun. Fyrst ber að nefna dreifistöð 023 þar sem haldið var áfram við að koma tengingum frá eldri dreifistöð við Gránufélagsgötu og Norðurgötu að nýju húsnæði sem var reist við Strandgötu 14b. Húsnæði dreifistöðvar við Strandgötu 14b var tekið í rekstur á haustmánuðum og notendur færðir yfir af eldri dreifistöð í áföngum. Framkvæmdir sem þessar útheimta góðan undirbúning og að skipulag sé í samráði við hlutaðeigandi. Hér er rétt að þakka m.a. íbúum svæðis fyrir gott samstarf í verkefninu.
Við Týsnes 22a var byggð dreifistöð sem mun þjóna svæði beggja megin við Óðinsnes fyrir komandi uppbyggingu á svæðinu. Komið var upp jarðspennistöð fyrir svæði við Kjarnaskóg þar sem uppbygging hefur staðið yfir.
Lagðir voru háspennustrengir frá dreifistöð 034 við Hörgárbraut langleiðina að dreifistöð 062 við Seljahlíð. Auk þess var lagður háspennustrengur frá dreifistöð 110 við Langholt að enda strengs sem beið tenginga vestan Hörgárbrautar. Lokið var við endurbætur á svæði við Hvannavelli þar sem töluverð endurnýjun átti sér stað. Hér voru tækifæri nýtt samhliða öðrum framkvæmdum á svæðinu og dreifikerfið styrkt með hliðsjón af uppbyggingu og þörfum viðskiptavina.
Til að auka enn frekar rekstrar- og persónuöryggi var áfram unnið að nýjum stjórnvaka, WinCC, sem gerir starfsfólki m.a. kleift að fylgjast betur með álagi, stöðu og viðvörunum í dreifikerfinu. Samhliða hefur verið unnið markvisst að því að skipta út eldri 11 kV rofabúnaði sem er í sumum tilfellum kominn til ára sinna. Nýrri búnaður dreifistöðva tengist alla jafna við stjórnvaka WinCC.
Orkuskipti í samgöngum
Orkuskipti í samgöngum hafa farið vel af stað á Akureyri en í lok árs ´2023 voru um 1.368 rafbílar skráðir á svæðinu. Byggst hafa upp staðir með hraðhleðslu þar sem ferðafólk og aðrir hafa möguleika á að hlaða rafbíla sína.
Almennt séð hafa eigendur raf- og tengiltvinnbíla tekið því vel að hlaða bifreiðar utan álagstíma dreifikerfis. Álagstími er alla jafna frá kl. 8:00 fram til kl. 22:00 á virkum dögum. Samtímaálag dreifikerfis og hleðsluhegðun bæjarbúa skipa nokkuð stóran þátt í að nýta dreifikerfi og innviði með hagkvæmum hætti. Álagsstýringar við fjölbýlishús og önnur stærri mannvirki er dæmigerð lausn þar sem lífsgæðum er deilt með jöfnum hætti. Rafhleðsla í samgöngum mun færa okkur áhugaverð en jafnframt krefjandi verkefni næstu árin. Þá er afar mikilvægt að minna fólk á að gæta hófs við val á hleðslubúnaði sér í lagi þar sem meðalakstur fólksbifreiða á Íslandi var um 38 km/dag árið 2022. Sjá frekari upplýsingar hér.
Þróun orkudreifingar hefur tekið breytingum síðusta ár eins og sjá má á meðfylgjandi grafi. Gera má ráð fyrir að orkusparnaður heimila sem skapast hefur með bættum tækjabúnaði og breyttri notkun sé að miklu leyti náð. Ný hverfi geta tekið mörg ár í uppbyggingu en hjá því verður ekki komist að lagnir og dreifikerfi skulu vera tilbúin þar sem nýbyggingar þurfa tengingu.
Spennubreytingar
Á árinu var unnið við spennubreytingu úr 3x230V kerfi í 3N400/230V hjá viðskiptavinum og var um 36 neysluveitum breytt. Spennubreytingum verður haldið áfram á næstu árum og tækifæri nýtt eftir atvikum þegar skipta þarf um lagnir. Lokið var við að afleggja dreifistöð 023 sem stendur á horni Gránufélags- og Norðurgötu þar sem uppbygging er fyrirhuguð og staðsetning stöðvarinnar til trafala. Auk þess var lokið við að breyta dreifikerfi og allt álag fært yfir á nýja dreifistöð 023 við Strandgötu 14b. Fyrsti áfangi Móahverfis er í framkvæmd og seinni áfangar í hönnun, þétting byggðar, endurbætur og styrking dreifikerfis eru metin samhliða þeim tilfallandi verkefnum.
Öryggismál og rafmagnsöryggisstjórnunarkerfi
Götuskápar Norðurorku eru í dag allir komnir með tvöfalda einangrun sem þýðir að markmiðum Norðurorku um að bæta persónu- og rekstraröryggi er náð hvað þann hluta varðar.
Á árinu var áfram unnið að því að leggja mat á hættusvæði ljósboga (ljósbogaorku) sem er ein af hættunum sem leynast í raforkukerfinu. Verkefnið snýst um að bæta bæði rekstraröryggi og ekki síður öryggi starfsfólks í vinnu við dreifikerfið. Á þeim stöðum sem búið er að leggja mat á ljósbogahættu er komið fyrir viðeigandi varúðarmerkingum og leiðbeiningum um þann hlífðarbúnað sem krafist er á hverjum stað. Þannig er dregið úr hættunni á slysum vegna mögulegra atvika ljósboga.
Ákveðnar reglur gilda um rafmagnsöryggisstjórnunarkerfi rafveitu (RÖSK) sem m.a. fela í sér að hverja dreifistöð skal skoða a.m.k. á 10 ára fresti. Á árinu 2023 voru þrjátíu og sjö raforkuvirki skoðuð skv. RÖSK Norðurorku. Dreifikerfi út frá viðkomandi raforkuvirki er skoðað út frá eftirlitsáætlun og lagfært eins og þörf er á hverju sinni, þess utan sem nýskoðun er gerð fyrir viðkomandi nývirki. Skipt er um þann búnað sem kominn er á aldur og/eða uppfyllir ekki lengur öryggiskröfur. Faggild skoðunarstofa tók út innri skoðanir dreifiveitu, þess utan voru ytri skoðanir framkvæmdar skv. opinberum kröfum þar sem u.þ.b. 1/3 hluti öryggisstjórnunarkerfisins var tekinn út.
Til baka - Yfirlit yfir starfsemina